139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[17:32]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Þór Saari) (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Við fengum í hendurnar plagg, minnisblað frá Seðlabankanum, þar sem farið var yfir álit lánshæfismatsfyrirtækjanna í gegnum árin. Það var nokkuð gegnumgangandi að staðan á Íslandi væri bara stórglæsileg og svo hrundi allt. Nú stendur til að stórauka skuldir þjóðarbúsins og staðan er enn þá ágæt.

Ég hef sjálfur þurft að skoða mat þessara lánshæfisfyrirtækja í gegnum árin í starfi mínu fyrir OECD og þau njóta einfaldlega ekki lengur virðingar á alþjóðavettvangi. Það er mjög varasamt að treysta því mati sem kemur frá þeim. Niðurstaða frá þeim um að Icesave og það að stórauka skuldir ríkissjóðs muni leiða til betra lánshæfismats er einfaldlega órökrétt og ég reikna ekki með að sjá nokkurn tíma þá niðurstöðu. Það kæmi mér verulega á óvart ef fram kæmi nýtt lánshæfismat (Forseti hringir.) með glæsilegri útkomu eftir samþykkt Alþingis.