Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 72. fundur,  6. mars 2023.

greinargerð setts ríkisendurskoðanda um Lindarhvol ehf.

[17:31]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég er ein af fjölmörgum hér inni sem er löglærð. Ég tel mig vera að fara að lögum þegar ég krefst þess eins og aðrir þingmenn, m.a. í forsætisnefnd, að birta eigi þessa greinargerð. Settur ríkisendurskoðandi er ríkisendurskoðandi í þessu máli. Ég tel það mjög varhugavert ef þingið ætlar að gefa og senda út þau skilaboð að þegar við setjum einhvern í ákveðið embætti, eins og ríkisendurskoðanda, vegna vanhæfni annars að við ætlum síðan ekki að taka mark á því sem kemur frá viðkomandi settum embættismanni. Mér finnst þetta vera loftfimleikar. Ég hefði haldið að Valur væri byrjaður með fimleikadeild innan síns félags en þessi lögskýring hv. þm. Brynjars Níelssonar gengur einfaldlega ekki. (Gripið fram í.) — Já, þess vegna veit ég þetta. [Hlátur í þingsal.] Því kemur enn og aftur það sama frá ríkisstjórninni, eitthvað sem er óþægilegt, það er hummað, það er gasprað og það síðasta sem þessi ríkisstjórn nær í er að stinga greinargerðinni undir stól og ofan í skúffu. (Forseti hringir.) Það bara gengur ekki lengur og það er vont að vita af því að hún hafi makað forseta þingsins í þessari leyndarhyggju. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)