133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

skýrsla um aðgang að opinberum gögnum um öryggismál Íslands 1945--1991.

[11:03]
Hlusta

Guðjón Ólafur Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil eins og fleiri taka undir að hér er um afskaplega vandaða skýrslu að ræða sem mikil vinna hvílir á bak við. Fyrir liggur að helstu niðurstöður skýrslunnar eru þær að hleranir varðandi öryggi ríkisins hafa átt sér stað á árunum 1949–1960 og það sem er kannski merkilegast að ávallt hafi verið kveðinn upp dómsúrskurður sem heimilaði hleranir áður en þær voru framkvæmdar. Og, eins og fram hefur komið, að lögregla gat ekki hlerað með þeim búnaði sem hún hafði án atbeina starfsmanna Pósts og síma.

Það er tvennt sem mér finnst merkilegast við skýrsluna. Í fyrsta lagi þær áhyggjur utanríkisráðherra í apríl 1959 að hann væri hleraður eða símar hans hleraðir. Í öðru lagi — og það sem mér fannst merkilegast er ekki það sem fram kemur í skýrslunni, heldur það sem fram kom á fundi nefndarmanna með forseta og formönnum þingflokka, sem ég sat fyrir hönd Framsóknarflokksins, að einhvers staðar í gögnum sem fylla 45 vörubretti og hafa að geyma gögn frá Pósti og síma hafa fundist vísbendingar um að alla úrskurði sem kveðnir hafa verið upp um hleranir sé að finna með áritun póst- og símamálastjóra. Ég tel að það séu stóru tíðindin í þessu máli og þess vegna legg ég áherslu á að því verði hraðað að fara í gegnum þessi 45 vörubretti af gögnum.

Ég fagna svo hugmyndum nefndarinnar um stofnun sérstakrar deildar í Þjóðskjalasafninu um þessi mál og geri ráð fyrir að við getum rætt frekar um þau efnislega þegar það frumvarp kemur fram á þinginu.