133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[11:22]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég vil formlega fyrir hönd Samfylkingarinnar óska eftir því að þessi tvö mál verði rædd saman. Ég hef ekki heyrt nein mótmæli koma fram í þingsal frá þeim þingmönnum sem hér eru. Það er þá rétt að þau mótmæli komi fram. Ég hef ekki heyrt þau.

Ef þau verða ekki rædd saman vil ég í annan stað líka að þá verði það mál sem lýtur að hinni svokölluðu skemmri áætlun rætt á undan. Það er fullkomlega eðlilegt. Í þeirri áætlun er framkvæmdum skipt eftir árum. Í hinni síðari er einungis skipt í þrjá kafla og ekki skipt eftir árum.

Sömuleiðis eru tæknileg rök fyrir því, frú forseti, það mál hefur lægra númer og það er bæði hefð og venja hér að málum er skipað á dagskrá eftir því hvar þau eru í númeraröðinni, lægri málum er skipað á undan.

En fyrst og fremst kem ég hingað til að óska formlega eftir því fyrir hönd Samfylkingarinnar að þessi mál verði rædd saman og ég óska svo eftir því að ef svo er ekki upplýsi hæstv. forseti af hverju.

Enginn í þessum þingsal hefur mótmælt því. Verða menn ekki að koma í þingsal til að mótmæla því? Geta þeir sett einhvers konar beiðnir um það laumulega til hæstv. forseta án þess að það komi fram hverjir það eru? Ég óska eftir svörum við þessu, frú forseti.