139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[18:11]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna þó að ég hafi vissulega ýmislegt við hana að athuga.

Ætla má af ræðu hv. þingmanns að hann telji — hann leiðréttir mig ef ég fer með rangt mál — að efnahagslegt tjón Íslands hafi ekkert verið af þeirri ástæðu að Icesave-deilan hafi verið óleyst og að lausn Icesave-málsins skipti engu máli þegar kemur að því að vinna okkur upp úr því efnahagsástandi sem við erum í og þurfum nauðsynlega að koma okkur upp úr.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann telji að umsögn fyrirtækja sem meta lánshæfi, sem birtist t.d. í minnisblaði Seðlabankans til fjárlaganefndar, þar sem þeir benda á mikilvægi þess að deilan leysist fyrir trúverðugleika landsins, skipti engu máli.

Í öðru lagi vil ég spyrja hv. þingmann hvort hann viti ekki um nein fyrirtæki sem hafa ekki fengið lán eða fengið óhagstæðari lán vegna þess að deilan væri óleyst eða fyrirtæki sem á annan hátt hafa beðið skaða vegna deilunnar.