153. löggjafarþing — 72. fundur,  6. mars 2023.

skaðaminnkandi úrræði og afglæpavæðing neysluskammta.

[15:45]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Við sáum það í þessum þætti Storms hvernig afglæpavæðing varð einhvern veginn bara nauðsyn; þegar það varð nauðsyn þá var gripið til afglæpavæðingar, en dagsdaglega er hún nauðsyn fyrir fólk sem er í þessum vanda. Ég skynja persónulega mikið hik hérna í svörum hæstv. ráðherra og velti því fyrir mér hvort við þurfum ekki dálítið pólitískt þor til að stíga þetta skref út af einmitt þessum fordómum í kerfinu sem er verið að lýsa: Það er hægt að fara til einhverra lækna, það er kannski hægt að fara í einhver neyslurými, sem eru í rauninni ekki til enn þá, það er verið að vísa í það að það er verið að leita að staðbundnu neyslurými í samvinnu við Reykjavíkurborg. Það þarf að ganga miklu hraðar miðað við stöðuna í dag. Það þarf í rauninni pólitískt þor til að segja bara: Núna gerum við þetta. Þetta verður komið í lag um næstu mánaðamót.