153. löggjafarþing — 72. fundur,  6. mars 2023.

úrræði fyrir fatlað fólk með fíknivanda.

[15:50]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni kærlega fyrir þessa fyrirspurn sem mér þykir vænt um að fá hér inn því að þetta er viðfangsefni sem er mjög brýnt í okkar samfélagi. Í þeirri framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks sem hv. þingmaður vitnaði í var markmið einnar aðgerðarinnar að fatlað fólk með fíknivanda eigi völ á sérhæfðum meðferðarúrræðum, líkt og hv. þingmaður kom inn á. Staða málsins er sú að í maí 2021 greindi þáverandi heilbrigðisráðherra frá því að ákveðið hefði verið að ráðast í heildarúttekt á þjónustuferlum, hugmyndafræði, innihaldi og gæðum þeirrar heilbrigðisþjónustu sem einstaklingar með vímuefnasjúkdóma njóta og skoða þá möguleika á frekari samhæfingu heilbrigðisþjónustu og félagslegrar þjónustu, ekki síst með tilliti til endurhæfingar, með tilliti til búsetuúrræða og stuðningsmeðferðar fyrir einstaklinga í bataferli. Úttektin á þá líka að fela í sér greiningu á stöðu mála hvað varðar þessa þjónustu fyrir fólk með geðfötlun sérstaklega eða þroskahömlun og einnig fyrir fólk með skyn- og hreyfihömlun. Þessi vinna er enn þá í gangi og af þeim viðtölum og þeirri gagnaúttekt sem farið hefur fram er alveg ljóst að það er þörf á sérhæfðu meðferðarúrræði á Íslandi fyrir fólk með fíkniefnavanda og það eru þó nokkrar fyrirmyndir að slíkum úrræðum fyrir fatlað fólk að finna erlendis en við erum ekki komin á þann stað að setja þær fram. Það er sem sagt enn þá unnið að þessari úttekt en það benda öll gögn til þess að það þurfi betur að samþætta þjónustu fyrir fatlað fólk með vímuefnavanda og þróa mismunandi úrræði út frá mismunandi fötlun. Ég geri ráð fyrir því að sú vinna muni halda áfram í heilbrigðisráðuneytinu.