Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 72. fundur,  6. mars 2023.

greinargerð setts ríkisendurskoðanda um Lindarhvol ehf.

[17:02]
Horfa

Forseti (Birgir Ármannsson):

Forseta hefur borist fyrirspurn til skriflegs svars frá Jóhanni Páli Jóhannssyni á þskj. 1220, um greinargerð setts ríkisendurskoðanda um Lindarhvol ehf. Þá hefur forseta borist önnur fyrirspurn á þskj. 1221 frá Birni Leví Gunnarssyni, um hlutverk ríkisendurskoðanda. Fyrirspurnirnar eru lagðar fram með stoð í 3. mgr. 8. gr. þingskapa er fjallar um rétt þingmanna til að leggja fram fyrirspurnir til skriflegs svars forseta um stjórnsýslu á vegum þingsins.

Fyrirspurnirnar sem um ræðir fjalla báðar um starfshætti ríkisendurskoðanda sem er sjálfstæður í störfum sínum. Störf ríkisendurskoðanda eru ekki hluti af stjórnsýslu Alþingis í skilningi 3. mgr. 8. gr., sbr. 91. gr. þingskapa. Þá er í 2. mgr. 91. gr. þingskapa skýrlega kveðið á um að starfsemi ríkisendurskoðanda falli ekki undir stjórnsýslu þingsins.

Á þessum grundvelli hefur forseti ekki leyft fyrirspurnirnar enda telur forseti að það væri bersýnilega í andstöðu við ákvæði þingskapa. Í þeim tilvikum sem forseti heimilar ekki fyrirspurnir skal forseti bera þær umræðulaust undir atkvæði á þingfundi og fyrirspyrjandi þess, sbr. 2. mgr. 57. gr. þingskapa. Jóhann Páll Jóhannsson og Björn Leví Gunnarsson hafa báðir óskað þess að greidd verði atkvæði og hafa fyrirspurnirnar því verið settar á dagskrá þingfundar og hyggst forseti láta fara fram atkvæðagreiðslu um þær hvora um sig.

Fyrst verða greidd atkvæði um fyrirspurn hv. þm. Jóhanns Páls Jóhannssonar og hefur hv. þm. Jóhann Páll Jóhannsson óskað eftir að taka til máls um atkvæðagreiðslu og bið ég þá sem ætla að taka til máls um atkvæðagreiðslu að gefa merki skýrlega.