Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 72. fundur,  6. mars 2023.

greinargerð setts ríkisendurskoðanda um Lindarhvol ehf.

[17:35]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Herra forseti. Svona fyrirspurn ætti náttúrlega að vera óþörf. Hvað stendur í þessari fyrirspurn? Það stendur: Hvað segir skýrslan sem forseti vill ekki opinbera? Hvað stendur í þessari greinargerð sem forseti er búinn að halda leyndri í ár? Svona fyrirspurn á náttúrlega ekki að þurfa, sérstaklega þegar gervöll forsætisnefnd vill birta þessa greinargerð fyrir utan forseta sjálfan. Það er kannski eðlilegt að forseti segi nei við þessari fyrirspurn en að fólkið sem vill birta greinargerðina sem er verið að spyrja út í segi nei, ég skil það ekki. Ég skil ekki hvernig nokkur þingmaður sem ekki styður þessa fyrirspurn getur í framhaldinu haldið því fram að viðkomandi sé ekki með í þessum leyndarleik, sé ekki með í að halda greinargerð setts ríkisendurskoðanda, um ráðstöfun þeirra fjármuna sem fóru í gegnum Lindarhvol, leyndri. (Forseti hringir.) Ég segi já við þessari fyrirspurn. Ég segi já vegna þess að (Forseti hringir.) þær upplýsingar sem hér um ræðir ættu allar að vera opinberar, ekki bara þær sem hv. þm. Jóhann Páll Jóhannsson spyr um heldur öll greinargerðin. (Forseti hringir.) Fólk sem segir nei í dag getur ekki haldið því fram að það styðji birtingu greinargerðarinnar í alvöru.

(Forseti (BÁ): Þingmaðurinn segir?)

Já.