154. löggjafarþing — 72. fundur,  13. feb. 2024.

Áhrif náttúruhamfara á innviði á Suðurnesjum, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[14:54]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir svarið. Það er oft þannig að við þurfum að horfa á margar sviðsmyndir og þegar kemur að því að forgangsraða þarf stundum að forgangsraða fleiri en einum hlut. Þarna hef ég miklar áhyggjur af því að við erum ekki búin að sjá verstu sviðsmyndina sem væri ef eldgos kæmi innan Svartsengis sjálfs. Þar eru varnargarðarnir eða þær pípur sem var verið að leggja um helgina ekki lausnin heldur þyrfti að fara í einhverjar aðgerðir eins og þessar. Það hefur verið talað hér um lághitaholurnar sem á að bora. Það tekur hálft ár. Það að byrja að byggja þessi tengistykki, hvort sem við þurfum að nota þau eða ekki, getur sparað okkur mánuði, getur sparað okkur mikla peninga. Að byggja eitt stykki kostar einn þriðja af því sem bara verkefni helgarinnar kostuðu. Þegar við gerum hlutina snemma þá (Forseti hringir.) kosta þeir nefnilega minna.