149. löggjafarþing — 73. fundur,  1. mars 2019.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð Reykjavíkurflugvallar.

86. mál
[15:53]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur ræðu hennar. Ég missti sennilega af einum tveimur mínútum af ræðu hv. þingmanns þannig að það er möguleiki að hún hafi talað enn skýrar á þeim kafla.

Ég vildi bara hnykkja á nokkrum atriðum. Þingmaðurinn talaði nokkuð um hæstaréttardóminn sem féll 2016, um að neyðarbrautin hyrfi á braut, sem leggur í rauninni grunninn að þeirri afstöðu sem kemur nú fram í aðalskipulagi höfuðborgarsvæðisins um að norður/suður-brautin hverfi á braut 2022. Er það sýn hv. þingmanns að við það skuli staðið að norður/suður-brautinni verði lokað árið 2022 til samræmis við það samkomulag sem var samt ekki meiri sátt um en svo að það fór fyrir Hæstarétt? Samningsaðilar litu því silfrið hvor með sínum augum. — Að vísa í það sem einhvern stórkostlegan grundvöll sátta í málinu? Ég get svo sem ekki annað en ýtt því til hliðar.

En mig fýsir að vita hvort hv. þingmaður sjái fyrir sér að norður/suður-brautinni skuli lokað árið 2022, sem er þá til samræmis við það meinta — jæja, það samkomulag, við skulum bara kallað það sem það er — sem gert var á sínum tíma. Það var væntanlega haustið 2013. Ég vildi gjarnan heyra afstöðu þingmannsins til þess atriðis.