151. löggjafarþing — 73. fundur,  24. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[20:26]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Bara örstutt um fjárfestinguna til að ég geti klárað það. Fjárfesting er metin sem hin hefðbundna fjárfesting í samgöngum, nýbyggingum og öðrum slíkum framkvæmdum. Þegar við erum hins vegar að fjárfesta í því sem sannarlega skiptir ekki minna máli, eins og rannsóknum og nýsköpun, birtast þeir þættir ekki sem fjárfesting hins opinbera. Þeir birtast sem aukin fjárfesting atvinnuveganna þegar þeir eru nýttir. Skiptir það máli? Algjörlega. En það lendir ekki í þeim kassa (Gripið fram í.) sem heitir opinber fjárfesting. Mitt mat er að við eigum alls ekki að binda okkur bara við það sem við getum kallað hefðbundnar fjárfestingar, heldur einmitt að horfa til fjölbreytninnar. Ég held að það skipti verulegu máli fyrir efnahagslífið.

Aðeins um verðbólguna og gengi og krónu og fleira. Ég vil benda á að Seðlabankinn og Hagstofan gera ráð fyrir í sínum spám að verðbólga muni hjaðna tiltölulega fljótt þegar líður á árið og verðbólguvæntingar fólks og fyrirtækja eru tiltölulega stöðugar. Ég vil líka benda á að gengisveikingu núna er ekki hægt að rekja til einhverra mistaka í efnahagsstjórninni. Þetta snýst einfaldlega um veiru sem hefur laskað efnahagslíf um heim allan. Ég tel ekki að atvinnuástandið núna væri til að mynda betra með annan gjaldmiðil.

Hvað varðar frumvarpið sem hér liggur fyrir er það einfaldlega í samræmi við alþjóðlega þróun þar sem við höfum séð gerbreytingu á því hvernig umræðan er um þjóðhagsvarúðartæki, sem var algjört bannorð hér á árunum fyrir fjármálahrun. Það mátti engum þjóðhagsvarúðartækjum beita því að allt átti að vera í frjálsu flæði milli ríkja. Þetta er auðvitað gerbreytt. Óheftir fjármagnsflutningar geta skapað mjög óhóflega áhættu. Ég tel algerlega fráleitt að tala um það frumvarp hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra sem hér liggur fyrir þinginu sem einhver ný tíðindi í þessu, heldur er þar fyrst og fremst verið að staðfesta að það er mikilvægt í litlu hagkerfi að við höfum heimildir til að beita þjóðhagsvarúðartækjum (Forseti hringir.) sem hafa fengið allt annan sess í opinberri umræðu um þessi mál á undanförnum árum eftir fjármálahrunið 2008.