151. löggjafarþing — 73. fundur,  24. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[21:43]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Já, ég hef fengið umræðuna um lúðuna inn á mitt borð og hef beint þeim tilmælum til stofnunarinnar að endurskoða ráðgjöfina í því. Þeir hafa ekki enn séð ástæðu til að breyta neinu. Það er hins vegar eitt sem ég vil nefna varðandi loðnuna og leitina að henni, að við megum heldur ekki gleyma framlagi fyrirtækjanna í uppsjávarveiðum, sem er alveg gríðarlega mikið og mjög gott, og sem ræður í rauninni úrslitum um að við getum náð þessum afla á land. Svo er alveg dásamlegt að fá tækifæri til að ræða blessaða grásleppuna hér við hv. þingmann. Ég þakka honum fyrir að nefna þessa fallegu og virðulegu skepnu. Já, ég held að við þekkjum það báðir hversu dapurlegt var t.d. á síðustu vertíð, fyrir upphaf hennar, að hafa ekki betri upplýsingar um stofnstærð og annað varðandi grásleppuna. Við rétt náðum að bjarga þessu nánast í horn. Þekkingin á þessari skepnu er ekki það mikil, því miður, að hægt sé að tala um að við séum með mikil nákvæmnisvísindi þar.

Ég vil ítreka að ég held að við eigum alltaf þann kost að bæta í rannsóknir. Þörfinni fyrir fjármuni til rannsókna verður aldrei fullsinnt því að það er margt hreinlega órannsakað í hafinu. Það eru endalaus verkefni. Þetta er ramminn sem dreginn er og við verðum einfaldlega að treysta því að það ágæta fólk okkar sem starfar innan vébanda þessarar mikilvægu stofnunar forgangsraði þeim fjármunum sem Alþingi veitir þeim hverju sinni til þeirra brýnustu verkefna sem sinna þarf. Ég veit að fjármunirnir eru þó það miklir að við getum líka tekið önnur verkefni en beinlínis þau sem falla eingöngu undir það að vera afar brýn. Stofnunin er vel fjármögnuð og getur sinnt fleiri verkefnum en einungis einhverjum neyðaraðgerðum.