133. löggjafarþing — 73. fundur,  19. feb. 2007.

ráðstefna klámframleiðenda.

[15:04]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég beini fyrirspurn til forsætisráðherra og spyr hvað ríkisstjórnin og ráðherrar hyggist gera eða hafi gert vegna þeirrar ráðstefnu sem hér er fyrirhuguð, eða hvataferðar skulum við segja sem hér er fyrirhuguð á næstunni á vegum samtaka eða aðila í klámiðnaðinum. Eins og ég sagði virðist vera um hvataferð að ræða og hvataferðir lúta að því að efla tengsl fólks í tilteknum fyrirtækjum og starfsgreinum og sameina, eins og þar stendur, skemmtun og starf. Þessar ferðir eiga með öðrum orðum að efla viðskiptatengsl og þróa ný viðskiptatækifæri. Klámiðnaðurinn er eins og við öll vitum órjúfanlega tengdur bæði vændi og mansali og þetta hvort tveggja eru hliðargreinar í klámiðnaðinum.

Klámiðnaðurinn er iðnaður sem við viljum ekki að festi rætur hér á landi. Ég held að við hljótum öll að vera sammála um það, virðulegur forseti, að þessi iðnaður brjóti gegn mannhelgi og kynfrelsi fólks. Þetta er með öðrum orðum mengandi iðnaður sem við kærum okkur ekki um hér á Íslandi. Þessi iðnaður elur á mannfyrirlitningu, eða kannski ættum við heldur að segja að hann ali ekki síst á kvenfyrirlitningu. Þessi iðnaður meiðir fólk.

Þegar um það er að ræða að 150 aðilar hyggjast koma hingað til lands í hvataferð snýst málið um siðræn viðhorf og ekki lagatæknileg og þó að ég geri mér alveg grein fyrir því að þetta viðfangsefni sé ekki alveg einfalt er það einu sinni þannig að þar sem er vilji, þar er vegur. Stígamót sendu bréf til þingmanna, borgarstjórnar, lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins, ríkislögreglustjóra og ríkisstjórnar Íslands og nú spyr ég hæstv. forsætisráðherra, af því að ég veit að þetta hefur verið rætt í ríkisstjórninni: Hvað hyggst ríkisstjórnin gera í þessu máli?