149. löggjafarþing — 73. fundur,  1. mars 2019.

minning þeirra Íslendinga sem fórust í seinni heimsstyrjöldinni.

83. mál
[11:44]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil nota tækifærið og þakka hv. þm. Óla Birni Kárasyni fyrir að flytja þetta mál. Það er mjög ánægjulegt að sjá hve breiður stuðningur er úr öllum flokkum við þetta mjög svo þarfa mál, eins og hv. þingmaður vísaði til. Við höfum tilhneigingu til þess, ég veit ekki af hverju, virðulegi forseti, til að gleyma því að þrátt fyrir að við höfum verið og verðum áfram herlaus þjóð færðum við miklar fórnir í seinni heimsstyrjöldinni.

Það skal enginn velkjast í vafa um að mesta mannfallið varð út af siglingum. Þeir sem tóku þátt í því og tóku þar af leiðandi þátt í að hjálpa til að frelsa Evrópu voru fullkomlega meðvitaðir um þá áhættu sem því fylgdi. Maður þarf ekki að tala við marga, bara þá sem til þekkja, og er ég þá sérstaklega að vísa til þeirra einstaklinga sem þekkja vel söguna og þekkja vel framvindu mála, til að sjá að vitneskjan um framlag okkar Íslendinga er svo sannarlega til staðar.

Við heyrðum það t.d. þegar við vorum með minningarathöfn í tengslum við heræfingu Atlantshafsbandalagsins fyrir einu ári síðan. Þeir erlendu gestir okkar sem þar töluðu vísuðu sérstaklega til þess. Það vekur líka athygli manns, eins og hv. þingmaður fór vel yfir, að þegar maður kemur til annarra landa, hvort sem það er austan hafs eða vestan, heiðra þessar vina- og bandalagsþjóðir okkar minningu þess fólks sem fórnaði lífi sínu. Mér finnst að við ættum að gera það líka.

Það sem kom mér á óvart þegar ég fór að vinna í þessum málum á sínum tíma var hversu hátt hlutfallið var í samanburði við aðrar þjóðir. Hv. þm. Óli Björn Kárason vísaði hér til þess að það væri sambærilegt hlutfall og hjá Dönum en mun hærra en hjá Svíum og hlutfallslega ekki langt frá því sem Bandaríkjamenn misstu. Þeir voru þó virkir þátttakendur í stríðinu, í það minnsta frá árinu 1941, þó svo að fyrstu aðgerðir þeirra í stríðinu hafi reyndar verið á Íslandi og fyrsta mannfallið nálægt Íslandsströndum. Það var sex mánuðum áður en Japanar réðust inn í Perluhöfn.

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að flytja þetta mál og hv. þingmönnum sem eru á málinu. Mér fyndist vera góður bragur á því ef hv. allsherjar- og menntamálanefnd ynni þetta mál með þennan breiða pólitíska stuðning hratt og vel og að við myndum gera það sem við eigum að vera löngu búin að gera, þ.e. að heiðra minningu þess fólks sem fórnaði lífi sínu fyrir góðan málstað. Fórnin var auðvitað gríðarlega mikil, sérstaklega fyrir fjölskyldur þessa fólks. Ég er sammála hv. þingmanni um að ekki síst fyrir fjölskyldur þessa fólks er mikilvægt að klára þetta mál. Ég vonast til þess að okkur auðnist að gera það á þessu þingi.