149. löggjafarþing — 73. fundur,  1. mars 2019.

minning þeirra Íslendinga sem fórust í seinni heimsstyrjöldinni.

83. mál
[11:48]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Frú forseti. Ég vil leyfa mér í upphafi að hrósa hv. þm. Óla Birni Kárasyni á þessum opinbera degi hróssins fyrir að færa okkur þessa tillögu til þingsályktunar til að heiðra minningu þeirra Íslendinga sem fórust í seinni heimsstyrjöldinni. Sömuleiðis hrósa ég öllum þeim þingmönnum sem standa að þessari tillögu og þar með auðvitað sjálfum mér. [Hlátur í þingsal.]

Þetta er góð tillaga og verðug. Það er í rauninni mikið umhugsunarefni og kemur eflaust mörgum á óvart hversu margir Íslendingar féllu í valinn í síðari heimsstyrjöldinni, eins og rakið er í greinargerð með tillögunni. Það voru í það minnsta 153 einstaklingar í beinum árásum eða árekstrum við tundurskeyti og raunar 58 til viðbótar. Flestir þeirra féllu í tveimur stórslysum þegar togarinn Sviði RE fórst í desember 1941 og togarinn Max Pemberton fórst í janúar 1944 og í báðum tilvikum eru leiddar að því líkur að þeir hafi orðið fyrir tundurskeytum í óveðri.

Heildarfjöldi þeirra sem fórust í hildarleik stríðsins og átakanna er talinn vera um 211 manns, allt fólk í blóma lífsins, jafnvel ungbörn og unglingar. Þetta var raunar, eins og fram hefur komið, hátt hlutfall landsmanna miðað við aðrar þjóðir sem jafnvel tóku virkan þátt í átökunum. Þetta var þess vegna mikil blóðtaka fyrir fámenna þjóð.

Meðal þeirra sem létu lífið í beinum tengslum við heimsófriðinn, samkvæmt því sem fram kemur í ritverkinu Virkið í norðri eftir Gunnar M. Magnúss, voru átta konur, mæður, börn og ungt fólk, farþegar með skipunum Goðafossi og Dettifossi sem urðu fyrir tundurskeytum. Flestir sem létust á þessum voðatímum stríðsins voru þó sjómenn við störf sín um borð sem urðu fyrir árásum eða lentu í árekstrum við tundurskeytið eins og fram kemur í greinargerðinni.

Íslendingar eru auðvitað sjómenn í ríkum mæli að upplagi og þótt fleiri þættir teljist vera undirstöðuatvinnugreinar er þessi þáttur veigamikill og á sér djúpar rætur meðal landsmanna allra. Sjómannsblóðið ólgar í mörgum Íslendingnum.

Þrjú fiskiskip að vestan — af því að málið er mér skylt úr mínu Norðvesturkjördæmi — þ.e. línuveiðarinn Fróði ÍS og línuveiðarinn Pétursey voru bæði skotin á kaf sama daginn, 11. mars 1941. Auk þess var vélbátnum Hólmsteini ÍS grandað í maí sama ár. Samtals týndu 15 Vestfirðingar lífi sínu í þessum árásum og alls létust af stríðsvöldum hátt á þriðja tug Vestfirðinga fyrir utan þann fjölda Íslendinga sem bjó hér. Þeir voru auðvitað flestir úr Reykjavík eða af suðvesturhorninu, af Suðurnesjum. Það er gríðarlega hátt hlutfall.

Þótt mörg byggðarlög hafi þurft að sjá á eftir mörgum sjómanninum í greipar hafsins í óveðrum og slysum í störfum sínum var stríðið alveg sérstakt fyrirbæri sem til er tekið. Þau byggðarlög sem byggðu allt á sjónum þekktu það auðvitað að þurfa að missa sjómenn í hafið í störfum sínum. Byggðarlögin fengust við það í samheldni. Þau reistu og hafa reist minnismerki um látna sjómenn víða og sýna þeim virðingu á sinn hátt.

En það er verðugt verkefni að heiðra minningu þeirra Íslendinga sem urðu fórnarlömb stríðsátakanna, reisa minnismerki af þessu tilefni eða gera það með öðrum hætti. Það er von okkar að það geti orðið til einhverrar viðvörunar og áminningar um það hversu fávísleg leið það er mannkyninu að herja með þessum hætti hvert á annað og fórna mannslífum, ungu fólki sem átti ekkert annað í vændum en enn bjartari framtíð og batnandi hag með sinni þjóð.