151. löggjafarþing — 73. fundur,  24. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[17:39]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Stjórnarflokkarnir hafa samþykkt sameiginlega stefnu sína á öllum málasviðum nú þegar. Það gerðu þau í desember. Þessi áætlun uppfærir aðeins tölur miðað við hagspá Hagstofunnar. Helstu fréttirnar eru þær að það er ekkert að frétta. Þetta er komið. Nú er bara beðið eftir kosningum. Í greinargerð með fjármálaáætluninni stendur, með leyfi forseta:

„Verði slegið af stuðningi of snemma er hætt við að efnahagslífið nái ekki nægilegri fótfestu og við taki lengri og dýpri efnahagslægð. Sé hagkerfinu á hinn bóginn veittur stuðningur í of langan tíma er hætt við ofhitnun með tilheyrandi verðbólguskoti og vaxtahækkunum.“

Ég vil taka undir þessi orð en um leið draga í efa að ríkisstjórnin hafi fundið hinn gullna meðalveg hvað þetta varðar. Það kom mér á óvart að framtíðarsýn ríkisstjórnarinnar fyrir næsta kjörtímabil væri þegar komin fram og samþykkt með fjármálaáætlun 2021–2025. Ég bjóst við að í fjármálaáætlun þeirri sem við ræðum hér gripi ríkisstjórnin tækifærið til að segja frá því hvernig þau vildu nýta betri afkomu en búist var við til að bæta heilbrigðiskerfið og mæta fólki og þeim landsvæðum sem verst verða úti í heimsfaraldrinum með sértækum aðgerðum, hvernig þau vildu vinna gegn vaxandi ójöfnuði og styðja hópana sem samkvæmt nýlegri könnun BSRB og ASÍ líða efnislegan skort. En svo er ekki. Framtíðarsýnin er sú að afkomubatinn verði nýttur til að ná fyrr niður skuldastöðunni, skuldastöðu sem er þó lág fyrir í öllum alþjóðlegum samanburði.

Markmiðið um að stöðva hækkun skuldahlutfallsins fyrir árslok 2025 er það sem stjórnarflokkarnir hafa komið sér saman um, já og líka að bæta 1 milljarði kr. á ári í loftslagsmál. Meira var það nú ekki. Kostnaðurinn af Covid-kreppunni verður minni til langs tíma ef ríkið stígur inn með miklu myndarlegri hætti en áætlað er með fjölbreyttum vinnumarkaðsaðgerðum og fjárfestingum. Nýta ætti slakann í hagkerfinu og vinna gegn atvinnuleysinu, renna fleiri stoðum undir atvinnulífið og verja velferðina og mæta tekjufalli fólks meðan það er á milli starfa. Ríkisstjórnin vill frekar festa sig í ákveðinni skuldatölu undir lok tímabilsins og tekur áhættuna á því um leið að efnahagslífið nái ekki nægilegri fótfestu og við taki lengri og dýpri efnahagslægð.

Það þarf að taka utan um atvinnuleitendur og fjölskyldur þeirra með sanngjarnari hækkun bóta, lengra bótatímabili og kraftmiklum vinnumarkaðsúrræðum. Hæstv. fjármálaráðherra segir að staða heimila sé nokkuð góð en þá er hann ekki að horfa sérstaklega til þeirra rúmlega 20.000 einstaklinga sem eru án atvinnu. Við munum ekki ná að vinna á halla ríkissjóðs nema við ráðumst gegn rót vandans. Rót vandans er auðvitað Covid-veiran og við vorum svo sannarlega minnt á það í dag að þetta er ekki búið. Það skiptir miklu máli að við tökum fast utan um þær aðstæður sem nú eru uppi, ekki bara vegna þess að það er mikilvægt fyrir heilsu fólks heldur er það líka mikilvægt fyrir efnahag landsins.

Það þarf að skapa störf, fjárfesta í innviðum og uppbyggingu og vinna markvisst gegn ójöfnuði. Samkvæmt hagspá Hagstofunnar verða um 10.000 manns atvinnulausir eftir fimm ár sem er langt umfram meðaltal síðustu áratuga. Þetta er einmitt nefnt í fjármálaáætluninni þó að ekki sé talað um nýjar aðgerðir eða fleiri fjárfestingarverkefni eða nokkuð annað til að mæta vandanum. Það er hins vegar fjallað um kerfislægan vanda, sem kallaður er svo í textanum, undirliggjandi vanda sem felist í verulegri hækkun launastigs umfram framleiðsluaukningu og geti leitt af sér meira langtímaatvinnuleysi en við höfum áður átt að venjast. Fjárfestingum í menntun, innviðum, rannsóknum og þróun er ætlað að styðja við framleiðniaukningu en með henni geti hagkerfið staðið undir hærri launasetningu en annars, eins og það er orðað í áætluninni.

Þetta er allt satt og rétt, en hvernig bregst ríkisstjórnin við? Fjárframlög til nýsköpunar voru aukin í ár og hækka lítillega samkvæmt áætluninni á næsta ári en strax tveimur árum seinna hafa framlögin lækkað um 26% og lækka um 34% á fimm árum. Kallað er eftir auknu fjármagni til nýsköpunar og það tekur fleiri ár en tvö að uppfylla þær kröfur og þær þarfir. Lausnin á framleiðnivandanum er að renna fleiri stoðum undir atvinnulífið sem eru til þess fallnar að auka framleiðni. Lausnin er ekki sú að kalla eftir og greiða fyrir óheftum vexti í atvinnugreinum sem skila lítilli framleiðniaukningu og standa ekki undir góðum kjörum í landinu.

Hæstv. ríkisstjórn hefur fundið lausnina og kynnir hana í fjármálaáætluninni. Hún er hvorki fleiri vel launuð störf né færri láglaunastörf heldur þessi sem segir í áætluninni, með leyfi forseta:

„Mikilvægt er að aðilar vinnumarkaðarins sammælist um nýtt og skilvirkara kjarasamningslíkan sem getur stuðlað að jafnvægi á vinnumarkaði og aukið með því stöðugleika öllum til hagsbóta.“

Þetta rósamál hagfræðinnar skil ég í þessu samhengi á þann veg að finna þurfi leiðir til að koma í veg fyrir launahækkanir lágra launa, svo sem víða eru í þjónustustörfum sem unnin eru af konum, ungu fólki og innflytjendum.

Herra forseti. Fjölbreyttar og arðbærar fjárfestingar eru undirstaða aukinnar verðmætasköpunar og aukin innviðafjárfesting mun gegna stóru hlutverki í að koma okkur upp úr atvinnukreppunni. Fjárfesting í innviðum hefur verið of lítil á síðustu árum og það mun bitna á okkur öllum til lengri tíma ef ekki verður bætt úr. Í nýrri skýrslu Samtaka iðnaðarins kemur fram að fyrirhuguð aukning í opinberri fjárfestingu mun lítið bíta á þeirri uppsöfnuðu viðhaldsþörf sem skapaðist í kjölfar síðustu niðursveiflu. Til þess að ástand innviða geti talist gott verður að setja enn meiri kraft í opinbera fjárfestingu í innviðum og þörf er á 420 milljarða kr. fjárfestingu til að koma þeim í viðunandi horf, líkt og segir í skýrslunni. Við náum ekki að halda við eðlilegri viðhaldsþörf gangi fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar eftir. Þannig erum við í raun að horfa fram á samdrátt í opinberri fjárfestingu þrátt fyrir mjög umfangsmiklar fjárfestingar Reykjavíkurborgar. Ef fram heldur sem horfir komumst við of seint af stað. Sveitarfélög víða um land sem treyst hafa á ferðaþjónustuna búa við kröpp kjör. Þar er mjög takmarkað svigrúm til fjárfestinga og það mun bitna á þessum viðkvæmu svæðum núna strax og einnig til lengri tíma. Ríkisstjórnin hefur ekki beint sérstökum stuðningi til þessara sveitarfélaga til að mæta tekjufalli þeirra og ákalli um aukna félagsþjónustu og það gerir þeim mun erfiðara að ráðast í umfangsmiklar fjárfestingar.

Síðasta haust þegar fjármálaáætlun var lögð fram lá fyrir að það stefndi í samdrátt í fjárfestingu hjá sveitarfélögunum og boðaðar framkvæmdir Vegagerðarinnar minnka um 7 milljarða milli ára. Á útboðsþingi Samtaka iðnaðarins 2021 kom fram að framkvæmdir urðu færri en gert var ráð fyrir. Í þessari kreppu þurfum við að dreifa fjármagninu á rétta staði. Fjármunirnir verða að leita í þá uppbyggingu sem skiptir máli og er arðbær til lengri tíma. Fjármunir verða að komast til þess fólks sem lendir í áfallinu núna og í innviðafjárfestingar sem styðja við atvinnulífið. Við vitum að þær fjárfestingar gagnast flestar körlum á framkvæmdatíma. Um 85% þeirra starfa sem skapast við framkvæmd fjárfestingarátaks ríkisstjórnarinnar eru karlastörf. Þess vegna er nauðsynlegt að mati okkar í Samfylkingunni að ráðast einnig í fjárfestingar í heilbrigðiskerfinu, menntakerfinu og velferðarkerfinu þar sem eru hefðbundin kvennastörf og mikil mannekla. Við eigum að fjölga hjúkrunarfræðingum, sjúkraliðum og fólki í umönnunarstörfum með öllum ráðum. Þetta er framlínufólkið okkar og er undir miklu álagi nú um stundir og atvinnuleysi er mikið meðal kvenna. Þar er mikill og verðmætur kraftur ónýttur og samfélaginu öllu til heilla að nýta hann.

Frítekjumark vegna launatekna öryrkja — herra forseti, nú er ég að ruglast á blöðum og ég má engan tíma missa. Nýleg rannsókn sem gerð var í sjö aðildarríkjum OECD sýnir að fjárfestingar í umönnun og velferð, svo sem öldrunarþjónustu, heilbrigðiskerfi og leikskólum, séu ekki síður árangursríkar og jafnvel vænlegri til árangurs en fjárfesting í starfsgreinum þar sem meiri hluti starfsmanna eru karlar, svo sem í opinberum framkvæmdum eða í byggingariðnaði.

Forseti. Í þessari fjármálaáætlun gilda samþykktir um málasvið sem við töluðum um hérna í desember. (Forseti hringir.) Þar skortir sannarlega á að mæta fólki sem þarf að treysta á ellilífeyri og örorkulífeyri og það er ekkert gert til að bæta kjör þessa fólks. En forseti, ég hélt ég hefði 15 mínútur og hef svo margt að segja en er ánægð með að þegar fjármálaáætlun kemur hér til síðari umræðu þá get ég talað endalaust.