154. löggjafarþing — 73. fundur,  15. feb. 2024.

kaup á íbúðarhúsnæði í Grindavík.

704. mál
[14:06]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegi forseti. Mig langaði kannski að byrja þar sem síðasti hv. þingmaður endaði og þakka fyrir það samráð sem hefur verið haft við þingmenn úr öllum flokkum. Þó að maður sé ekki endilega fullsáttur við niðurstöðuna þá var svo sannarlega haft við okkur samráð og fyrir mér eru þetta ný vinnubrögð og nýtt að upplifa slíkt. Það skiptir miklu máli að slíkt samráð eigi sér stað og það er bara til fyrirmyndar.

Við erum núna að ræða mál — það hefur aldrei gerst í sögu landsins, sögu þjóðarinnar, að við værum að taka á slíku máli sem þessu. Við erum að taka ákvörðun um að íbúar í einu sveitarfélagi hreinlega fari þaðan, jafnvel til allrar framtíðar. Það er auðvitað sárt til þess að hugsa að staðan skuli vera slík að íbúar í sveitarfélagi sem hefur verið til algjörrar fyrirmyndar í gegnum tíðina séu í þessari stöðu. Þess vegna finnst mér svo mikilvægt núna að við náum utan um þetta mál á þann hátt, eins og við höfum oft sagt, að það falli enginn milli skips og bryggju. Það er orðalag sem við höfum nýtt hér og notað þegar við höfum verið að ræða þessi mál, bæði í kórónuveirufaraldrinum og síðan líka varðandi önnur mál sem við höfum verið að takast á við hér til stuðnings Grindvíkingum, um launastuðning, húsnæðisstuðning og síðan erum við með inni á borði frumvarp um rekstrarstuðning til fyrirtækja sem við þurfum að vanda mjög vel.

Mig langar að byrja á 1. gr. frumvarpsins þar sem segir:

„Markmið laga þessara er að verja fjárhag og velferð íbúa í Grindavíkurbæ í ljósi óvissuástands vegna jarðhræringa með því að gefa einstaklingum í bæjarfélaginu kost á að losna undan þeirri áhættu sem fylgir eignarhaldi íbúðarhúsnæðis í bænum.“

Þetta er mergur málsins. Þetta er það sem við lögðum af stað með og þetta er það sem Grindvíkingar hafa verið að bíða eftir, að við ætluðum að taka utan um þá og losa þá undan þeirri fjárhagsskuldbindingu sem er til staðar í Grindavík og skapa þeim möguleika til að fara annað og skapa sér öryggi, skapa sér húsnæðisöryggi, skapa börnunum sínum öryggi til lengri tíma, til þess að þau geti hafið eðlilegt líf á nýjan leik og þurfi ekki að búa við þá óvissu sem nú er til staðar hjá íbúum Grindavíkur sem eru dreifðir úti um allt land. Ég vil segja það bara áður en ég held áfram að ég er að stærstum hluta til sáttur við að það sé verið að grípa til þessara aðgerða. Ég er sáttur við að það sé verið að mæta þessum hópi fólks og mæta óskum íbúa um að þeir verði keyptir út. Ég er líka sáttur við að ráðherra var tilbúinn til að skoða breytingar á þessu sem m.a. fólust í þeirri prósentu sem lögð er til grundvallar. Það hefur því vissulega verið hlustað en ég er þó þeirrar skoðunar að það hefði mátt ganga lengra og ég hefði viljað að yrði gengið lengra.

En um hvað erum við að ræða? Við erum að ræða um að það eigi að kaupa upp íbúðir sem voru í þinglýstri eigu einstaklinga þann 10. nóvember 2023 sem jafnframt voru með lögheimili skráð í húsnæðinu. Það er möguleiki að víkja frá þessu vegna tímabundinna aðstæðna. Ég verð að segja eins og hv. ræðumaður sagði hér á undan mér áðan að ég er nervus við að skilja svona eftir. Þarna erum við að skilja eftir gat sem einhverjir embættismenn eiga að ákveða hvernig skuli farið með. Ég hefði viljað að við myndum reyna að hnýta betur utan um þetta, hverjar þessar tímabundnu aðstæður geta verið, því það er ekki gott að það sé túlkunaratriði þegar við erum að ræða jafn mikilvægt mál og þetta.

Þetta frumvarp á líka að ná utan um, eins og hér hefur verið nefnt, dánarbú, þau eru nú að koma inn í frumvarpið á síðari stigum eftir að umsagnir bárust. Við erum að ræða íbúðir í byggingu sem er í eigu einstaklinga en við erum ekki að ræða íbúðir í byggingu sem er í eigu lögaðila. Við erum ekki að ræða íbúðir sem iðnaðarmenn hafa verið að smíða í Grindavík sem eru hálfkláraðar, hálfklárað húsnæði. Margir þeirra hafa lagt aleiguna undir, sett sjálfa sig að veði og sett eigið fé í þessar byggingar en þeir verða skildir eftir. Þannig að það eru hópar þarna sem falla á milli skips og bryggju.

Mig langar aðeins að fara yfir það sem mér sýnist að sé ekki í þessu frumvarpi. Maður veltir fyrir sér fólki sem dvelur á hjúkrunarrýmum. Í hvaða stöðu er það? Það hefur ekki getað dvalið heima hjá sér kannski um langa hríð. Hér hefur líka verið nefnt fólk sem á húsnæði en leigir til fjölskyldumeðlima. Það eru líka hópar sem hafa keypt hús til að leigja á almennum markaði og hér hefur líka verið nefnt fólk, fullorðið fólk, sem hefur sett sparnað í að kaupa fasteign, kannski lífeyrissjóðinn sinn að mestu leyti, séreignarsjóðinn sinn, hefur safnað sér séreignarsjóði með því að eiga kannski aukaeign. Við getum nefnt fólk sem rekur gistiheimili og býr kannski á sama stað. Síðan eru það leigufélögin sem eiga húsnæði í Grindavík og við getum alveg verið viss um að leigufélög sem tapa fjármunum á eignum upp í Grindavík munu afla þess fjármagns einhvers staðar annars staðar. Það þýðir bara hækkun á verði einhvers annars staðar.

Mig langar líka að nefna sérstaklega félög sem reka húsnæði í Grindavík á félagslegum grunni og þau eru nokkur. Við getum nefnt Bjarg sem mér er nú hugleikið, hafandi tekið þátt í að stofna það á sínum tíma. Það á íbúðir í Grindavík og það á ekki að bæta þær eignir sem Bjarg á í Grindavík. Við getum nefnt Búseta sem er í raun og veru félagslegt félag, það á reyndar að horfa til þess að reyna að greiða út búseturéttinn sem viðkomandi einstaklingar hafa lagt inn en það á ekki að greiða það sem félögin sjálf eiga. Þarna erum við að tala um Búseta og við erum að tala um Búmenn. Við erum líka að tala um Brynju sem er félag sem er að byggja fyrir fatlaða einstaklinga. Brynja hefur ekki mikið umleikis en við vitum auðvitað að félagið þjónar þeim hópi sem hvað verst stendur í samfélaginu og við ætlum að skilja Brynju eftir með þær íbúðir upp í Grindavík sem félagið á þar, það fæst ekki bætt.

Ég legg til og vonast til þess að við fáum einhverja umræðu í efnahags- og viðskiptanefnd um þessa hluti því að það skiptir máli, og ég ætla að halda áfram að segja það, að fólk sé ekki að falla á milli skips og bryggju.

Ég spurði hæstv. ráðherra að því í andsvari hér áðan hvort hún hefði tölurnar yfir þá eigendur íbúða sem ekki fást bættar. Mig langar líka að nefna að í Grindavík eru sterk og stöndug fyrirtæki sem hafa fjárfest í húsnæði fyrir starfsmenn sína, til að hafa umgjörð um starfsmenn sína og fá þá hreinlega til vinnu í Grindavík. Þau sitja kannski eftir með fjölda íbúða og þær fást ekki bættar.

Það kemur fram í greinargerðinni að það hafi 3.669 manns búið í Grindavík 1. janúar 2023 og um áramótin hafi verið þar 1.150 fullbúnar íbúðir og um 90 ófullkomnar. Fjármálaráðuneytið metur það svo að frumvarpið nái til um 850 íbúða þar sem eigendur áttu jafnframt lögheimili, að frádregnum þeim 50 íbúðum sem hafa orðið fyrir altjóni og fást væntanlega bættar í gegnum Náttúruhamfaratryggingu Íslands eða það verður fært yfir til Þórkötlu ef eigendur kjósa svo og fá síðan greitt í gegnum Þórkötlu. Þetta þýðir að 270 fjölskyldur geta lent á milli skips og bryggju. Það er bara stór pakki í mínum huga. Mér finnst eðlilegt að við skoðum þetta og reynum að fækka eins mikið þeim tilfellum og kostur er. Þegar við erum að leggja út í aðgerð sem er svona kostnaðarsöm eins og þessi aðgerð þá skiptir litlu hvort við bætum við einhverjum milljörðum til viðbótar í mínum huga. Mér finnst það bara skrýtið ef við erum að bjarga fólki á bát og við ætlum að segja: Það eru fimm í bátnum en við ætlum að bjarga fjórum en skilja einn eftir. Mér finnst það bara skrýtin pólitík að reyna ekki að bjarga öllum þeim sem eiga húsnæði í Grindavík. Það myndi líka skapa þeim möguleika á að koma annaðhvort upp starfsemi annars staðar eða þá öðru fólki við að koma sér upp íbúðum annars staðar sem geta þá nýst því sjálfu en líka öðrum.

Virðulegur forseti. Það eru þarna atriði sem við þurfum að horfa betur á. Mér finnst skrýtið að einstaklingur sem á tvær íbúðir fái bara aðra bætta. Ef það að bæta íbúðarhús — ég bara næ þessu ekki. Ég legg áherslu á það og ég vænti þess og vonast til þess að við tökum höndum saman í efnahags- og viðskiptanefnd og reynum að knýja á um einhverjar breytingar hvað þetta varðar.

Það má líka benda á að í þessum umsögnum lýsti fólk þeirri skoðun sinni að þetta væri allt of skammur fyrirvari. Vissulega þurfum við að vinna hratt, það er nauðsynlegt fyrir okkur að vinna hratt. En það er líka nauðsynlegt fyrir okkur að vanda okkur af því að við viljum — ég skynja góðan vilja allra til að gera eins vel og hægt er. En við verðum að vanda okkur í þessu því að þetta er svo mikilvægt mál. Það skiptir svo miklu máli fyrir alla þá sem búa í Grindavík að við stöndum okkur í þessu, ætlum ekki að vera í einhverju fúski við þetta. Þó að það verði bara einn sem fær ekki sínu framgengt, er það einum of mikið.

Ég legg áherslu á það, virðulegur forseti, eftir að þessu máli hefur verið vísað til efnahags- og viðskiptanefndar, að nefndin leggist vel yfir þetta og vandi til verka og við fáum kannski frumvarp til baka sem verður þess eðlis að við fækkum þeim sem falla utan þessa frumvarps.