149. löggjafarþing — 74. fundur,  4. mars 2019.

fjórða iðnbyltingin.

[15:33]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Ég er sammála hæstv. forsætisráðherra um að það er jákvæð hugmynd að festa framtíðarnefndina í sessi og hefur vinnan í nefndinni gengið mjög vel. Það er ákveðin samsvörun milli þeirrar vinnu sem var í nefndinni um fjórðu iðnbyltinguna og þess sem við erum að vinna þar. Það er alveg rétt að umræðuhefðin þarf að ná tækniþróuninni. Samfélagið er búið að breytast svo hratt að ákveðið rof verður milli þess hvernig við hugsum um tækni og þess hvernig við sem samfélag tölum um hana.

Slíkt rof hefur átt sér stað áður. Við getum séð hversu mikil og víðtæk áhrif borgarvæðingin og eignatilfærslurnar, sem áttu sér stað þegar gufuvélarnar komu fram, höfðu á gerð samfélagsins. Á þeim tíma jókst misskiptingin gríðarlega mikið. Þó svo að lífsgæði allra hafi vaxið gríðarlega varð úr samfélagsástand sem við erum í rauninni búin að vera að rífast um síðustu 200 árin.

Mig langar til að spyrja hæstv. forsætisráðherra aftur: (Forseti hringir.) Með hvaða hætti eigum við að koma í veg fyrir að hin nýja samfélagsgerð, sem verður til vegna þessarar tækniþróunar, verði ekki til þess að auka enn á misskiptinguna? Það er lykilatriði sem við þurfum að eiga við hér á þinginu.