151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[17:54]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég held að það sé mjög margt sem þurfi að koma inn í myndina þegar við tölum um aukið traust á kerfinu. Eitt af því er eftirfylgni með aðgerðaáætlun um meðferð kynferðisbrota innan réttarkerfisins. Í þeirri eftirfylgni sem er reglulega farið yfir kemur t.d. fram að þrátt fyrir verulega aukinn fjölda mála sem koma á borð lögreglunnar og til héraðssaksóknara hefur gengið vel að hraða málsmeðferðartíma. Fyrir áramót voru það einungis tvö mál sem biðu afgreiðslu sem voru meira en ársgömul og það var ákveðinn áfangi að klára þau til að sýna fólki að kerfið virkar, að það þurfi ekki að bíða of lengi niðurstöðu sinna mála. Þau skipta líka máli öll þau frumvörp sem ég hef lagt fram hér, hvort sem það er til að taka á ofbeldisháttsemi sem varðar brot á kynferðislegri friðhelgi eða umsáturseinelti eða það frumvarp sem liggur í samráðsgátt um stöðu brotaþola. Ég bind miklar vonir við að allt styrki þetta og treysti trú fólks á kerfinu. Það þarf meira að koma til. Stöðugildum hefur fjölgað hjá lögreglunni til að takast á við þessi mál og málsmeðferðin hefur verið að styttast. Hv. þingmaður nefnir rafrænu innviðina, hvernig þeir hafi áhrif í þessu efni. Rafrænu innviðirnir munu veita fólki betra aðgengi að kerfinu, hraðari upplýsingar, meira gagnsæi og ég held að það verði til bóta og efli traust að fólk sjá hvar málið er í ferli, að það fái aðgang að gögnunum samstundis og geti fylgst vel með málinu. Ég held að það sé einn liður af mjög mörgum þáttum sem þurfa að koma inn. Eftirfylgni með aðgerðaáætluninni er stór partur af því sem og öll sú vinna og breytingar á lagarammanum sem styrkja réttarstöðu brotaþola ýmissa ofbeldisbrota. Ég held að þetta spili allt saman. Réttarvörslugáttin er eitt af því sem ég nefndi í upphafi ræðu minnar en öll styrkingin sem almennt hefur farið til lögreglunnar í þessum málum er auðvitað til bóta. Ég veit að það er mikið verk fyrir höndum og það eru ekki bara þessi atriði sem munu treysta og tryggja trú fólks á kerfinu.