152. löggjafarþing — 74. fundur,  16. maí 2022.

leiðrétting búsetuskerðinga.

[15:09]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég er ekki löglærður maður en hann sagði: Með lögum er bara hægt að borga fjögur ár aftur í tímann. Með lögum. En lög voru brotin. Lög voru brotin 13 ár aftur í tímann. Má það? Ég bara spyr. Ef einhver úti í bæ brýtur af sér og hann segir: Það eru bara fjögur ár sem má taka, skattpeningar eða eitthvað, fjögur ár aftur í tímann, haldið þið að hann komist upp með það? Hann verður að skila öllum ránsfengnum. Ríkissjóður á að skila öllum ránsfengnum. Þetta er verst setta fólkið á landinu sem á varla fyrir mat, með langlægstu tekjur sem hægt er að hugsa sér. Það er tekið af því í 13 ár. Ég get ekki séð að ríkisstjórnin geti varið sig á fjögurra ára reglu vegna þess að ef brotið er í 13 ár þá á að borga 13 ár. Annað getur ekki staðist. Og ég spyr ráðherra: Ætlar hann að sjá til þess og berjast fyrir því að þetta fólk fái rétt sinn?