152. löggjafarþing — 74. fundur,  16. maí 2022.

aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum.

[15:22]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Evu Sjöfn Helgadóttur fyrir þessar yfirgripsmiklu spurningar sem vísa til skýrslu Ríkisendurskoðunar sem ég ætla að segja hér og nú og þegar að er býsna góð og mun nýtast okkur. Það er hárrétt sem hv. þingmaður fór yfir, í fyrsta skipti 2016 var lögð fram hér einhvers konar samantekin stefna í málaflokknum. Þá rifjast upp að það voru frjáls félagasamtök, eins og gjarnan er, sem vöktu athygli á því að við værum ekkert allt of mikið að sinna þessum mikilvæga málaflokki. Það var 1970 og eitthvað að Kiwanis-klúbburinn var með þá setningu: Gleymum ekki geðsjúkum. Síðan gerist ekki nógu mikið allt of lengi. Það er rétt sem kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar, og það er eitthvað sem við verðum að taka tillit til, að það vantar alla samhæfða upplýsingagjöf. Og af hverju? Jú, við erum ekki nógu dugleg að safna réttum gögnum og greina hlutina. Við erum hins vegar búin að gera margt mjög vel á skömmum tíma. Það er rétt að hér liggur fyrir þinginu, ég er búinn að leggja fram þingsályktunartillögu um framtíðarsýn í geðheilbrigðismálum til 2030, stefnu sem ég er að bíða eftir að þingið taki til skoðunar, og á sama tíma er verið að vinna aðgerðaáætlun. Ég legg áherslu á að hún verði ekki kláruð fyrr en þingið (Forseti hringir.) er búið að taka utan um þessa stefnumótun sem liggur fyrir.