Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 74. fundur,  7. mars 2023.

málefni innflytjenda og vinnumarkaðsaðgerðir.

782. mál
[14:45]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að leggja fram þetta frumvarp og tala fyrir því. Ég er búin að vera að kynna mér það og hafði í fyrstunni svolitlar áhyggjur af þessu þar sem er verið að leggja niður höfuðstöðvar Fjölmenningarseturs sem er vissulega í mínu kjördæmi, á Ísafirði, og er mjög mikilvægt. En öllum breytingum fylgir tækifæri og ég held að ef vel er á spöðum haldið þá verði þetta tækifæri til þess að efla Vinnumálastofnun enn frekar á svæðinu sem hefur unnið mjög mikilvægt starf og er mikilvæg þessum hóp sérstaklega fyrir vestan og fleiri stofnanir, bæði á vegum ríkis og sveitarfélaga, eins og t.d. bara Fjölmenningarsetur sem gegnir mjög mikilvægu hlutverki fyrir þennan hóp því að hlutfall erlendra ríkisborgara fyrir vestan, á Vestfjörðum, er næsthæst. Það eru bara Suðurnesin sem toppa það. Þetta eru yfir 20% íbúa á Vestfjörðum og ég held að sparnað eigi ekki að nota í þessu máli. Allar þær krónur sem fara í að styrkja þessa hópa til að taka þátt í samfélaginu eru mjög mikilvægar og ég held að við eigum frekar að horfa til þess enn frekar að nýta okkur þau tækifæri sem eru til á staðnum. Og til að leggja fram einhverja spurningu þá langar mig til að spyrja hæstv. ráðherra hvort það hafi farið fram samtal við Vinnumálastofnun fyrir vestan og hvar þessi vinna sé stödd núna, að styrkja Vinnumálastofnun þar.