151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[14:41]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Með samþykkt síðustu þriggja fjármálaáætlana hefur Alþingi ákveðið verulega innspýtingu til verkefna á málefnasviði 17, þ.e. umhverfismálanna. Helstu áherslur lúta að aðgerðum í þágu loftslagsmála og kolefnishlutleysis landsins fyrir árið 2040, aðgerðum til verndar íslenskri náttúru fyrir komandi kynslóðir, vörnum gegn náttúruvá, eflingu hringrásarhagkerfisins og átaki í fráveitumálum. Framlag ríkissjóðs til málefnasviðsins er, samkvæmt fjárlögum 2021, um 21,4 milljarðar kr. og gert er ráð fyrir að það verði 22,8 milljarðar á árinu 2026 eða sem nemur um 6,7% aukningu miðað við verðlag ársins 2021. Ef aftur á móti er horft til breytinga frá árinu 2017 þá hefur framlag ríkissjóðs til málefnasviðsins aukist um 68,4% til ársins 2026.

Fjármálaáætlunin gerir ráð fyrir 1 milljarðs kr. auknu framlagi árlega til loftslagsmála næstu tíu ára eða fram til ársins 2031. Um er að ræða aukin framlög til aðgerða á grundvelli aðgerðaáætlunar stjórnvalda í loftslagsmálum. Þessi auknu framlög skiptast milli fjögurra málefnasviða í samræmi við heimahöfn verkefna, þ.e. samgöngu- og fjarskiptamál, landbúnað, orkumál og síðan umhverfismál. Fjárheimildir til loftslagsmála hafa ríflega þrefaldast á milli áranna 2017 og 2021 á nafnvirði. Mesta aukningin er vegna beinna framlaga til loftslagsmála en þau hafa áttfaldast á tímabilinu, farið úr 227 millj. kr. árið 2017 í 1,9 milljarða kr. á árinu 2021. Bein framlög til loftslagsmála fara áfram vaxandi á næstu árum. Rétt er að benda á að árið 2022 er metár í framlögum til loftslagsmála en þá verða þau rúmir 13 milljarðar kr.

Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum er meginverkfæri stjórnvalda í baráttunni gegn loftslagsvánni. Auknu fjármagni til loftslagsmála er ætlað að hraða orkuskiptum í samgöngum og haftengdri starfsemi, stuðla að nýsköpun og aukinni kolefnisbindingu með meira umfangi uppgræðslu, endurheimt vistkerfa, nýskógrækt og fleira.

Náttúruvernd er annar stór málaflokkur á málefnasviði 17. Meginmarkmiðið þar er að tryggja vernd náttúrufarslegra verðmæta og sjálfbæra nýtingu lands til framtíðar, m.a. með uppbyggingu innviða og landvörslu, sem byggi á vísindalegri þekkingu, fræðslu, upplýsingamiðlun og samráði við hagsmunaaðila. Fjármunum verður varið til fjölbreyttra verkefna í þágu náttúruverndar og sjálfbærrar nýtingar, svo sem til áframhaldandi uppbyggingar innviða um land allt. Um 8 milljarðar eru í þessum verkefnum á næstu fimm árum og þar með talið fjármagn til að fylgja eftir áformum stjórnvalda um stofnun hálendisþjóðgarðs þar sem tæpum 4,2 milljörðum kr. verður varið, sérstaklega á árunum 2021–2026, í uppbyggingu innviða og rekstri. Mig langar líka að vekja athygli á því að á þessu kjörtímabili höfum við klárað fjármögnun og hafið framkvæmdir við þrjár gestastofur í þjóðgörðunum okkar á Hellissandi, Kirkjubæjarklaustri og í Mývatnssveit.

Fjárheimildir til ofanflóðavarna voru auknar með afgreiðslu síðustu fjármálaáætlunar en á tímabilinu 2022–2026 er gert ráð fyrir að um 13,4 milljarðar kr. renni til málaflokksins svo það markmið náist að uppbyggingu ofanflóðavarna í þéttbýli verið lokið árið 2030.

Virkni hringrásarhagkerfisins felst í ábyrgri framleiðslu og neyslu, að draga úr sóun með því að koma í veg fyrir myndun úrgangs og stuðla að bættri meðhöndlun hans með endurnotkun og endurvinnslu. Í ár verður 500 millj. kr. varið til hringrásarhagkerfisins þar sem m.a. verður ráðist gegn matarsóun, plastmengun og sóun á textíl en á tímabili fjármálaáætlunar munu 1,8 milljarðar renna til eflingar hringrásarhagkerfisins.

Kveðið er á um átak í fráveitumálum í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Í þessari fjármálaáætlun er gert ráð fyrir 2,4 milljörðum kr. í formi stuðnings til sveitarfélaga til þess að bæta ástand fráveitumála en þegar hefur einum milljarði verið varið til þessa átaks. Verkefnið er hluti af fjárfestingarátaki ríkisstjórnarinnar og gert er ráð fyrir að sveitarfélög geti sótt um styrki til þess að mæta hluta kostnaðar við fráveituframkvæmdir allt til ársins 2030 lögum samkvæmt.

Hæstv. forseti. Sem fyrr fagna ég því hvaða athygli og umfjöllun umhverfis- og loftslagsmál hafa fengið í almennri umræðu undanfarin ár. Aukning fjárframlaga til málefnasviðsins úr ríkissjóði á starfstíma þessarar ríkisstjórnar er í mjög góðum takti við þetta. Og það ber vott um skýra pólitíska sýn og áherslu enda um brýna og þarfa forgangsröðun fjármuna að ræða.