152. löggjafarþing — 74. fundur,  16. maí 2022.

leiðrétting búsetuskerðinga.

[15:07]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni kærlega fyrir fyrirspurnina. Ég vil segja það fyrst varðandi dóminn að ég brást strax við honum með reglugerðarbreytingu daginn eftir eða tveimur dögum eftir að hann féll til þess að það kæmi til leiðréttingar núna í framhaldinu og ég fékk þær fréttir frá Tryggingastofnun í morgun að þeim sé að takast að gera leiðréttinguna fyrr en þau áttu von á, sem er mjög gott. Ég hef líka sagt það í þessum ræðustól við fyrirspurn hv. þm. Guðmundar Inga Kristinssonar að ég er ánægður með þessa niðurstöðu Hæstaréttar. Hún er skref í réttlætisátt fyrir þau sem minnst hafa á milli handanna í íslensku samfélagi og ég stend við þá yfirlýsingu mína.

Varðandi greiðslur aftur í tímann þá erum við einfaldlega með þau lög í landinu að það er miðað við fjögur ár, það er fjögurra ára fyrningarfrestur og við munum vinna eins hratt og við getum til að koma greiðslum til þess fólks núna í framhaldinu.

Hv. þingmaður kom líka inn á mál sem hefur verið í fjölmiðlum, og er reyndar líka fyrirspurn til skriflegs svars sem er í vinnslu í ráðuneytinu hjá mér, frá hv. þm. Jóhanni Páli Jóhannssyni, sem fjallar um séreignarsparnað og úttöku á honum, en heimild þess efnis var gerð sem eitt af Covid-úrræðunum og átti ekki og á ekki að hafa áhrif á bætur. Það hefur ekki tekist sem skyldi vegna þess að það var ekki skráð rétt á skattframtal hjá öllum fyrir fram frá Skattinum, byggt á upplýsingum frá lífeyrissjóðum og vörsluaðilum og er það mjög miður. En Tryggingastofnun er búin að gera það sem í hennar valdi stendur og mun halda áfram að ýta á að þetta verði leiðrétt. En Skatturinn þarf ekki síður að skoða þessi mál.