143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[16:29]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég óska hv. þingmanni til hamingju með orðgnóttina, plokkfiskur á lélegu veitingahúsi sem hent er í gestinn og sagt: Étt´ann. Þetta var einkunn hins magnaða hv. þingmanns á tillögu hæstv. utanríkisráðherra. Ég hefði aldrei getað komist svona vel að orði.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Telur hann ekki að hann sé að fara fram úr sjálfum sér þegar hann hefur þau ummæli um Framsóknarflokkinn að hann sé og hafi verið einangrunarhyggjuflokkur? Ég tel erfitt að kalla slíkt yfir þingheim án þess að færa sterkari rök fyrir því.

Ég vil því gjarnan, herra forseti, hlýða á rökstuðning hv. þingmanns fyrir slíku. Ekki vill hann láta það liggja eftir sem sleggjudóm. Hann hlýtur að finna hjá sér innri þörf til að færa rök fyrir þeirri fullyrðingu sinni og þá væntanlega á jafn kyngimögnuðu máli og hann viðhafði í ræðu sinni áðan.