152. löggjafarþing — 75. fundur,  16. maí 2022.

útlendingar.

595. mál
[21:32]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur fyrir þessar mikilvægu spurningar. Sannarlega snýst þetta um að svipta fólk ákveðinni þjónustu og í raun er verið að velta því yfir í annað kerfi. Það er sannarlega þannig að Félagsþjónusta sveitarfélaganna veitir „útlendingi í neyð“, eins og það er kallað, ákveðna aðstoð. Oftast gengur sú aðstoð út á að aðstoða fólk við að komast heim, þar á meðal aðstoð við kaup á flugmiða í dæmum sem hv. þingmaður nefnir. Það er augljóslega verið að setja fólk í mun erfiðari stöðu og að mínu mati byggir þessi þjónustusvipting á þeim misskilningi að sú verulega takmarkaða lágmarksþjónusta sem fólk fær meðan það er að bíða eftir svari við umsókn um alþjóðlega vernd sé það sem heldur fólki á landinu. Það er hins vegar ekki svo. Það sem gerist er einfaldlega það að þetta fólk lendir í erfiðari stöðu en það er í fyrir.

Mig langar af þessu tilefni að lesa upp úr umsögn Rauða krossins við frumvarpið, með leyfi forseta:

„Með því að kveða á um niðurfellingu á þjónustu er varðar grunnvelferð fólks er hætta á að alvarleg vandamál skapist. Umræddir einstaklingar yrðu þar með berskjaldaðir fyrir hvers kyns misneytingu, mansali og ofbeldi. Breytingin hefði þau áhrif á íslenskt samfélag að heimilislausu fólki myndi fjölga, örbirgð og neyð aukast. Samhliða því myndu líkurnar á skaðlegri hegðun og afbrotum aukast. Ljóst er að álag á félagsleg kerfi sveitarfélaga og lögreglu mun aukast, samhliða breytingunni.“

Þetta er augljóslega það sem mun gerast við þessa breytingu vegna þess að það er ekki þannig að einstaklingur, sem telur sig vera í lífshættu í heimalandinu eða þangað sem á að flytja hann, skoppi bara upp í næstu flugvél af því að hann fær ekki lengur matarpening. Nei, það er ekki svo. Fólk sækir hér um vegna þess að það telur sér raunverulega ekki vært í heimaríkinu. Það sem gerist þegar fólk er svipt þjónustu er að það verður án þjónustu og það er engum í hag.