143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[20:26]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Gestaþrautin, leitin að forustu Sjálfstæðisflokksins, heldur áfram í þingsalnum. Það er með ólíkindum að ráðherrar sem eru berir að ósannindum, sem eru berir að því að ganga á bak borða sinna, ganga á bak skýrra loforða komi ekki hingað í þingsal, færi fram rök fyrir sinnaskiptum sínum þegar til umræðu er tillaga sem felur í sér grundvallarbreytingu á afstöðu Sjálfstæðisflokksins til þess með hvaða hætti eigi að fara með aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu.

Það hlýtur að vekja spurningar um með hvaða hætti Sjálfstæðisflokkurinn nálgast málið. Við bíðum þess líka í ofvæni að sjá hæstv. fjármálaráðherra bæta sér á mælendaskrána og við munum glöð bíða þannig að hann geti komist frekar fljótt á mælendaskrá og (Forseti hringir.) sagt okkur frá útleggingum sínum á því með hvaða hætti eigi að fara að því (Forseti hringir.) að svíkja skýr kosningaloforð.