152. löggjafarþing — 75. fundur,  16. maí 2022.

framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda.

592. mál
[18:46]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Virðulegi forseti. Hér er lögð fram þingsályktunartillaga um framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda fyrir árin 2022–2025 samkvæmt 7. gr. laga um málefni innflytjenda, nr. 116/2012. Þessi áætlun, líkt og fyrirrennari hennar, byggir á fimm meginstoðum um samfélag, fjölskyldu, menntun, vinnumarkað og flóttafólk. Undir hverri stoð eru lagðar til aðgerðir til að ná fram markmiðum hverrar stoðar.

Hér er lagt til að ráðist verið í viðamikla stefnumótun í málaflokknum og að unnið verði að gerð grænbókar og í framhaldinu hvítbókar þar sem mörkuð verði langtímasýn í málefnum innflytjenda. Ég tek fram að hér er ég að ræða um fyrstu stoðina, samfélag. Mikilvægt er að sjónarmið fjölmenningar endurspeglist í allri stefnumótun, stjórnsýslu og þjónustu hins opinbera og að virk þátttaka innflytjenda á öllum sviðum samfélagsins sé talin eðlileg, sjálfsögð og mikilvæg. Samfélagsstoð framkvæmdaáætlunarinnar byggir auk stefnumótunarinnar á fræðslu jafnt fyrir opinbera starfsmenn sem og upplýsingamiðlun til innflytjenda, svo sem með því að byggja ofan á það starf sem unnið hefur verið á ráðgjafastofu innflytjenda. Þannig verði aðgengi að upplýsingum tryggt fyrir alla og virkri ráðgjöf við innflytjendur á Íslandi fram haldið. Þá er lögð áhersla á aukna gagnaöflun og þekkingarmiðlun þannig að stjórnvöld byggi sínar aðgerðir á sterkari grunni og að þróaður sé vettvangur þar sem unnt er að miðla rannsóknum, þekkingu og tölfræðilegum upplýsingum er varða málefni innflytjenda og flóttafólks í íslensku samfélagi. Í samfélagsstoð hafa sveitarfélögin mikilvægu hlutverki að gegna og með stuðningi við gerð móttökuáætlana og í krafti stefnumótunar er lagt til að stuðlað verði að því að fjölmenningarsjónarmið og hagsmunir innflytjenda séu samþættir í stefnumótun

Fjölskyldustoð byggir á þátttöku innflytjenda á öllum sviðum samfélagsins þar sem sjónum er beint að tómstundariðkun barna, fötluðum börnum og ungmennum sem hvorki eru í skóla né vinnu. Sérstaklega er horft til húsnæðismarkaðar, félagslegs öryggis og velferðar. Horft er til framtíðar og litið til málefna eldra fólks því fjölgun innflytjenda á Ísland þýðir að eldri innflytjendum mun fjölga. Sem dæmi um aðgerðir til að ná þessum markmiðum fram má nefna áherslu á að auka þátttöku barna og ungmenna af erlendum uppruna í skipulögðu íþrótta-, tómstunda- og æskulýðsstarfi og að stuðningur við fötluð börn af erlendum uppruna og aðstandendur þeirra verði efldur. Í menntastoð er lögð áhersla á fjölmenningarlegt lærdómssamfélag á öllum skólastigum þar sem fjöltyngi er styrkt og stutt er við móðurmál nemenda og fjölgun fræðsluaðila af erlendum uppruna. Leita þarf lausna á mati á þekkingu þeirra sem hingað flytja svo að samfélagið fari ekki á mis við þann þekkingarauð sem innflytjendur hafa fram að færa. Á sama tíma þarf öfluga íslenskukennslu fyrir fullorðna til að styrkja virka þátttöku fólks í samfélaginu. Aðgerðir í menntastoð miða því að mati á fyrri þekkingu, mati á menntun og stuðningi við móðurmál innflytjenda sem og virkum stuðningi við íslenskunám. Mikilvægt er að tryggja fjölbreyttar raddir innan menntakerfisins og því er áhersla lögð á að fjölga markvisst kennurum og öðru fagfólki úr röðum innflytjenda innan kerfisins.

Í vinnumarkaðsstoð er að finna aðgerðir með það að markmiði að jafna tækifæri á vinnumarkaði, fræða fólk um réttindi sín og skyldur og að draga úr atvinnuleysi á meðal innflytjenda. Áhersla verði lögð á að styrkja stöðu innflytjenda á íslenskum vinnumarkaði með aðgerðum sem draga úr atvinnuleysi þeirra á meðal og stuðla að því að innflytjendur hafi jafnan aðgang að störfum og fái greidd sömu laun og njóti sömu kjara og aðrir fyrir sömu eða jafn verðmæt störf. Innflytjendur njóti sömu verndar og aðrir á vinnumarkaði og séu vel upplýstir um réttindi sín og skyldur. Mikilvægt er fyrir þennan hóp að vita hvert hægt sé að leita verði fólk fórnarlömb brotastarfsemi, svo sem félagslegra undirboða, á vinnumarkaði. Jöfn tækifæri á vinnumarkaði eru mikilvægur liður í að styrkja stöðu innflytjenda á vinnumarkaði. Þar er mikilvægt að hið opinbera leiði með góðu fordæmi í ráðningum og því snýst ein af aðgerðunum um fjölgun innflytjenda í opinberum störfum og að opinberar ráðningar endurspegli þá staðreynd að innflytjendur eru 15,5% landsmanna. Þá er jafnframt nauðsynlegt að endurskoða löggjöf um atvinnuréttindi útlendinga. Snýr sú endurskoðun m.a. um að ákvæði er varða útgáfu dvalarleyfa á grundvelli atvinnuþátttöku verði rýmkuð og skilvirkni aukin. Þá verði tryggt að fólk sem fær dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða eða sérstakra tengsla við landið fái samhliða óbundið atvinnuleyfi.

Virðulegi forseti. Síðasta stoð áætlunarinnar fjallar um flóttafólk. Ástæða er til að hafa sérstaka stoð um þann hóp enda kemur flóttafólk ekki til landsins á sömu forsendum og aðrir innflytjendur. Í framkvæmdaáætluninni er því lagt til að sértaklega verði horft til velferðar flóttafólks. Samræmdri móttöku flóttafólks verði haldið áfram enda gefur hún góða raun. Þá verði hugað sérstaklega að andlegri líðan flóttafólks, verklag við móttöku fylgdarlausra barna verði endurskoðað og komið verði á fót sértækum stuðningi fyrir fylgdarlaus börn og ungmenni sem hér hljóta vernd. Við sjáum það, einkum nú þegar fjöldi fólks leitar skjóls á Íslandi frá grimmilegri styrjöld sem nú geysar í Úkraínu, hversu mikilvægt er að huga að andlegri líðan. Aðgerð sem miðar að því að greina hagi og líðan flóttafólks og umsækjenda um alþjóðlega vernd á Íslandi og þátttöku þeirra í samfélaginu getur lagt grunn að velferð fólks til langrar framtíðar. Við höfum ekki hikað við að takast á við krefjandi verkefni. Ísland hefur þegar mótað sér stefnu um að taka á móti flóttafólki í sérstaklega viðkvæmri stöðu í gegnum störf flóttamannanefndar. Í framkvæmdaáætlun er því lögð áhersla á að efla fræðslu um réttindi til þess hóps sem og fagfólks sem kemur að móttöku þeirra. Einnig er lögð áhersla á aðgerðir sem miða að því að tryggja fræðslu, ráðgjöf og stuðning við fólk sem tilheyrir sérstaklega viðkvæmum hópum um réttindi þess hér á landi og þann stuðning sem stendur því til boða. Jafnframt skuli tryggja að þeir sem þjónusta flóttafólk sem telst í sérstaklega viðkvæmri stöðu fá fræðslu um þann sértæka stuðning sem því er nauðsynlegur. Með slíkri fræðslu valdeflum við jafnt flóttafólkið sjálft sem og þau er á móti þeim taka.

Virðulegi forseti. Framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda snertir á flestum málefnum samfélagsins. Jöfn tækifæri til þátttöku eru lykill að farsælu samfélagi og með áætluninni er mörkuð leið á þeirri vegferð.

Að lokinni umræðu legg ég til að þingsályktunartillögunni verði vísað til hv. velferðarnefndar.