149. löggjafarþing — 76. fundur,  6. mars 2019.

störf þingsins.

[15:15]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Virðulegur forseti. Á leið minni til vinnu í gærmorgun og raunar einnig í morgun varð ég var við það sem mætti fara að kalla hin forna fjanda höfuðborgarsvæðisins, þ.e. svifryk. Mælingar sýna glögglega að styrkur svifryks er langt yfir viðmiðunarmörkum og er svokallaður grár dagur í Reykjavík. Í Reykjavík fer lognið hratt og kannski eins gott, að öðrum kosti væru hér mun verri loftgæði. Þá daga sem froststillur eru fá vegfarendur sem eru gangandi og hjólandi kirfilega á baukinn frá samborgurum sínum sem keyra um á negldum dekkjum. Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu bera ábyrgð á að sópa götur og ryðja hjólastíga, en það kann að vera erfitt þegar veðurfar er rysjótt. Sem betur fer hefur verið kynnt áætlun um orkuskipti í samgöngum, en útblástur dísilbíla er einn sökudólgurinn í þessum efnum. Þá stendur eftir umferðarmagnið.

Ég hlýt að nefna það hér að hjólreiðar hafa stóraukist á undanförnum árum. Þær voru orðnar um 6% af ferðum á höfuðborgarsvæðinu árið 2017 og það var helmingsaukning frá 2014. Ég held að þær séu enn á uppleið, enda frábær leið til að sameina það að komast í vinnuna og hreyfa sig.

Uppbygging hjólastíga og hágæðaalmenningssamgangna er lykilatriði í því að berjast gegn svifryksmengun ásamt rafvæðingu bílaflotans. Með því gerum við fólki auðveldara fyrir að velja samgöngumáta sem hefur jákvæð áhrif á heilsu þess, heilsu jarðarinnar og heilsu annarra. Það er því bæði mikilvægt umhverfismál og lýðheilsumál að draga úr svifryksmengun, en hér á landi má ætla að um 80 ótímabær dauðsföll verði á ári vegna svifryks.

Ég held að það hljóti að koma til tals að setja eins konar mengunargjöld á í höfuðborginni eða á höfuðborgarsvæðinu því að frelsi til að búa til svifryk má ekki ganga á rétt annarra til þess að þurfa ekki að anda því að sér.