149. löggjafarþing — 76. fundur,  6. mars 2019.

störf þingsins.

[15:34]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Ég held að ef við horfum yfir fjölmiðlamarkaðinn, eins og hv. síðasti ræðumaður gerði, komumst við ekki hjá því að segja sem svo að með vissum hætti sé Ríkisútvarpið fíllinn í stofunni. Það er hins vegar rétt sem hv. þingmaður benti á, að breytingar sem hafa orðið á fjölmiðlamarkaði í hinum breiða skilningi hafa náttúrlega töluverð áhrif á það hvernig við getum skilgreint markaði og hvernig við getum skilgreint það starfssvæði sem hér er undir. Engu að síður er það nú svo að á þeim markaði, sem við getum kallað hinn íslenska fjölmiðlamarkað, er Ríkisútvarpið vissulega afar fyrirferðarmikið. Það er spurning sem við þurfum að velta fyrir okkur, m.a. í tengslum við tillögur sem væntanlegar eru um stuðning við einkarekna miðla í landinu, hvernig haga beri fjármögnun Ríkisútvarpsins, hvort eðlilegt sé að það sé á sama tíma fjármagnað með nefskatti, eins og það er að stórum hluta, en sé jafnframt stór þátttakandi á auglýsingamarkaði, sem er helsta tekjuöflunartæki þeirra einkamiðla sem starfandi eru og eru á margvíslegan hátt í samkeppni við Ríkisútvarpið.

Við hljótum líka að velta fyrir okkur hvort Ríkisútvarpið einbeiti sér raunverulega að almannaþjónustuhlutverkinu, eins og það er skilgreint, eða hvort samkeppnishluti rekstursins sé hugsanlega of umfangsmikill. Þetta eru allt saman spurningar sem við þurfum að spyrja okkur. En auðvitað er það rétt sem hv. þm. Guðmundur Andri Thorsson benti á, að fjölmiðlamarkaðurinn er samtengdari umheiminum en nokkurn tímann áður. Það (Forseti hringir.) hefur áhrif á stöðu bæði Ríkisútvarpsins og þeirra einkareknu miðla sem starfa á þessum markaði.