154. löggjafarþing — 76. fundur,  21. feb. 2024.

vísitala neysluverðs.

137. mál
[17:05]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingar á lögum um vísitölu neysluverðs, nr. 12/1995 (vísitala neysluverðs án húsnæðis). Með mér á frumvarpinu eru flokksfélagar mínir, þau Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Jakob Frímann Magnússon og Tómas A. Tómasson. Í upphafi þingvetrar þegar við lögðum fram okkar þingmannamál var öllum öðrum þingmönnum boðið að vera meðflytjendur á þessu máli en enginn þáði.

1. gr. frumvarpsins hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Á eftir 2. málsl. 1. mgr. 1. gr. laganna kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Ekki skal taka tillit til húsnæðiskostnaðar við útreikning vísitölu neysluverðs.“

2. gr. hljóðar svo:

„Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Í greinargerð með frumvarpinu segir, með leyfi forseta:

Frumvarp þetta var lagt fram á 152. og 153. löggjafarþingi (20. mál) en náði ekki fram að ganga og er nú lagt fram að nýju efnislega óbreytt. Ég er sem sagt að mæla fyrir þessu máli í þriðja sinn en við í Flokki fólksins höfum í raun barist fyrir því á ýmsan máta frá því að við komum á Alþingi að fá þessum húsnæðislið hnekkt úr vísitölu neysluverðs.

Frá því í desember árið 2021 hefur verðbólga mælst yfir 5% á ársgrundvelli. Frá miðju síðasta ári, 2023, hefur verðbólgan verið að skaga í hátt í 10% samkvæmt vísitölu neysluverðs. Hækkandi húsnæðisverð hafði töluverð áhrif á þessa þróun, en vísitala neysluverðs án húsnæðis mældist iðulega 2–3 prósentustigum lægri á sama tímabili. Hugsið ykkur, við höfum verið að lifa hér við algjört ófremdarástand á húsnæðismarkaði þar sem í rauninni er vitað og hefur alltaf verið vitað að bara það að taka húsnæðisliðinn út úr útreikningi á neysluvísitölunni hefði hreinlega lækkað verðbólguna hér um 2–3 prósentustig. Er nema furða að maður spyrji sig hvers lags eiginlega hagstjórn er í þessu landi? Er þessari ríkisstjórn í rauninni alveg nákvæmlega sama hvernig hún kemur fram við þegnana? Skiptir það hana engu máli hvort við erum að borga 3% meira eða minna í vaxtakostnað? Þannig að ég segi að verðbólgan hefði verið 2–3 prósentustigum lægri á þessu tímabili vegna þess og við skulum átta okkur á því hversu gríðarleg áhrif það hefur í rauninni á lánakjörin, bæði hvað varðar greiðslubyrði óverðtryggðra lána og höfuðstól verðtryggðra lána. Það myndast keðjuverkandi áhrif sem leiða til enn frekari hækkana á húsnæðisverði. Þessi þróun hefur leitt til aukinnar greiðslubyrði heimilanna og verulegra höfuðstólshækkana á verðtryggðum lánum. Það verður að koma í veg fyrir þann tvíverknað sem felst í því að hækkandi húsnæðisverð hafi áhrif á vísitölu neysluverðs, eða þá keðjuverkun réttara sagt sem í kjölfarið leiðir til enn hærra húsnæðisverðs. Við erum bara hérna í naggrísahjólinu, að eltast við skottið á okkur sjálfum.

Allir muna hvaða skelfilegu afleiðingar verðbólgan hafði á verðtryggð lán fjölskyldna landsins í kjölfar efnahagshrunsins 2008. Þar tvöfölduðust skuldir heimilanna á einni nóttu og jafnvel ríflega það. Hátt í 15.000 fjölskyldur misstu heimili sín í kjölfarið. Þetta má aldrei gerast aftur, aldrei. En í hvað er að stefna akkúrat núna? Jú, verðbólgan er komin núna undir 7%. Frábært, hallelúja. Seðlabankastjóri heldur samt sem áður og þrátt fyrir það stýrivöxtunum enn í 9,25%. Það myndi skipta heimili og lítil og meðalstór fyrirtæki jafnt sem sveitarfélög og ríkissjóð sjálfan hundruðum milljarða króna samanlagt ef við næðum þessum vaxtakostnaði niður um 2,5–3 prósentustig. Ríkissjóður einn og sér er að greiða 117 milljarða á ári í vaxtagjöld.

Þetta er sárara en tárum taki. Maður eiginlega skilur ekki þessa hagstjórn. Ég get ekki skilið þetta. Ég get ekki skilið af hverju ríkisstjórn sem er í lófa lagið að laga hlutina gerir það ekki. Hvers vegna að hanga svona eins og hundar á roði á þessum húsnæðislið þegar við höfum séð að núna frá í rauninni aldamótum þá hefur einu sinni á þessu tímabili húsnæðisverð lækkað og það var í kringum hrun? Í kjölfarið á hruninu lækkaði húsnæðisverðið. En hvers vegna? Þá dældust heimili fjölskyldnanna inn í græðgisvæddu leigufélögin. Íbúðalánasjóður seldi fasteignirnar í kippum til græðgisvæddra leigufélaga þannig að í rauninni var framboðið mörgum sinnum meira en eftirspurnin. Fæstir gátu í rauninni fengið greiðslumat eða látið sig dreyma um það að fjárfesta í fasteign á næstunni enda hefur sú verið raunin.

Þess vegna er rosalega einkennilegt að standa hér núna og vera að horfa fram á það að í stað þess að bankarnir séu að hrynja innan frá þá eru þeir í rauninni að blóðmjólka heimili og lítil og meðalstór fyrirtæki landsins með okurvöxtum, algjörum okurvöxtum. Við erum að sjá stórfellda fjármagnsflutninga frá fjölskyldum og venjulegum heimilum í samfélaginu til bankakerfisins, til bankanna sem eru svo verndaðir algerlega hreint og skinhelgir að það má ekki einu sinni láta þá taka þátt í okkar sameiginlegu baráttu gegn þessum vanda sem ríkir í efnahagsmálunum með því að hækka hjá þeim bankaskattinn í 0,88%, taka þannig 30 milljarða kr. og þurfa ekki að bæta við frekari lántökum þótt við værum að takast á við áskoranir eins og það að taka utan um Grindvíkinga.

Við höfum þó samt sem áður heyrt því fleygt hér, og hefur verið rætt hér, t.d. af formanni Framsóknarflokksins, að það væri kannski ástæða til að fara að líta á þennan húsnæðislið. Það er eins og með svo margt annað sem kemur í formi svona, hvað á ég að segja, við skulum líta á þetta og við skulum skoða hitt. Það væri nú gaman ef þetta væri hinsegin en ekki svona og kannski ættum við að gera þetta hinsegin, ekki svona, e.t.v. og allt það. Ekkert af þessu kannski, hinsegin, svona og e.t.v. skiptir nokkru einasta máli þegar kemur að raunveruleikanum, þegar kemur að því að athuga hvað við erum raunverulega að gera. Hver erum við hér? Til hvers erum við kosin hér? Hvers vegna stend ég hér? Ég er kjörinn fulltrúi. Íslenska þjóðin — það eru kjósendur sem hafa valið sér valdhafana hér. Við erum löggjafi. Okkur er í lófa lagið að taka utan um samfélagið í heild sinni og færa fjármuni í átt að réttlæti og jafnræði en ekki stórkostlegri misskiptingu og auðsöfnun á fárra hendur. En það er svona.

Það er náttúrlega svona þegar pilsfaldakapítalistinn ræður hér ríkjum. Það er alveg stórmerkilegt í rauninni að þeir sem sigla skútunni og standa í brúnni skuli vera í rauninni vinstri flokkur, Vinstrihreyfingin – grænt framboð, þau sem áður boðuðu — hæstv. forsætisráðherra sagði hér í ræðustóli Alþingis í september 2017 við þáverandi forsætisráðherra, Bjarna Benediktsson, og hans stefnuræðu, hluti af hennar ræðu þá við stefnuræðu þáverandi forsætisráðherra var nákvæmlega að það að láta fátækt fólk bíða eftir réttlætinu væri það sama og að neita því um réttlæti. Hér hefur fátæku fólki verið neitað um réttlæti undir þessari stjórn þessa forsætisráðherra sem þetta mælti hér fyrir sjö árum síðan, neitað um þetta réttlæti í tæp sjö ár. Ég veit ekki hversu lengi þykir eðlilegt að láta fólk bíða eftir réttlætinu, að fátækt fólk bíði eftir réttlætinu. Ég veit bara að hefði Flokkur fólksins verið við stýrið þarna, hefði ég verið þessi hæstv. forsætisráðherra, þá væri fátækt fólk ekki enn að bíða eftir réttlætinu. Við í Flokki fólksins myndum ekki hika við að ganga í troðfullar fjárhirslur auðmagnsins til þess að þeir tækju frekari þátt í okkar sameiginlegu verkefnum og tækju frekari þátt í samfélaginu.

En við skulum átta okkur á því að til að sporna gegn hörðustu áhrifum verðbólgunnar á heimilin þá auðvitað myndi skipta alveg gífurlega miklu máli að við losuðum húsnæðisliðinn út úr neysluvísitölunni. Með slíkri breytingu má draga verulega úr mældri verðbólgu, og hver vill það ekki, núna þegar við erum að fara að eygja það að það er að koma fram lækkun, hún er að sýna sig? Við erum búin að ná verðbólgunni niður núna, niður fyrir 7%, en þá fáum við þetta aftur í andlitið, frekari lántökur og frekari þenslu, gjaldskrárhækkanir um síðustu áramót og allt þetta. Hvers lags hagstjórn er þetta eiginlega? Annan stað er verið að tala um hversu mikilvægt það er að ná verðbólgunni niður og ná utan um í rauninni þetta ófremdarástand og vaxtaokur sem ríkir á markaðnum. Það er verið að tala núna um snjóhengjuna sem mun falla yfir þúsundir heimila, snjóhengjuna þar sem lán einstaklinga og fjölskyldna sem eru með föstum breytilegum vöxtum eru núna að fara að stökkbreytast á þessu ári og hafa í rauninni gert líka á síðasta ári þar sem þó nokkuð margir eru þegar að berjast um í þessu snjóflóði og reyna að moka sig upp úr því en eina í rauninni ráðið sem lántökum hefur verið bent á að nýta sér til þess einmitt að komast upp úr snjóflóðinu og reyna að bjarga heimili sínu, hvað skyldi það nú vera annað heldur en að skipta yfir í verðtryggt lán? Og hvað þýðir það nú aftur? Jú, ef þú hefur myndað einhvern eignarhluta í eigninni þinni þá tekur það ótrúlega skamman tíma í verðbólgu- og okurvaxtasamfélagi að éta þann eignarhluta upp. Það tekur líka ótrúlega skamman tíma að breytast þannig að greiðslubyrði sem í dag er viðráðanleg af því að þú ætlar að fórna eignarhlutanum þínum með því að taka verðtryggða lánið — það tekur ekki mörg ár að þú sért í rauninni kominn í nákvæmlega sömu afborganir og þú varst þegar þú varst að reyna að bjarga þér frá þeim og síðan bara hækka þær og bara hækka meira og meira. Þú lengir bara í hengingarólinni en algerlega í lok dags ertu þarna hengdur, það eru algerlega hreinar línur. Þú getur ekki sloppið við það. Það er ekki hægt að sleppa undan því nema þú vinnir í lottóinu, sért orðinn öryrki á ofurlaunum eða aflir þér að einhverju leyti tekna sem munu geta greitt af þeirri holskeflu afborgana og erfiðis sem þú kemur til með að ganga í gegnum.

Jú, jú, það má segja: Voðalega er þetta svart allt saman, voðalega er þetta svart. En hugsið ykkur hvað það gæti verið fallega hvítt og sólin skini vel ef einhvern tíma væri gert eitthvað með það sem maður er að segja, skiptir algjörlega höfuðmáli og myndi koma í veg fyrir flest af því sem hér hefur verið sagt. En það er alveg eins með þetta og nánast allt annað sem við höfum sagt hér í Flokki fólksins þegar við byrjuðum að vara við verðbólgubrjálæðinu sem við sáum að var handan við hornið hér strax í upphafi árs 2020, ég og hv. þm. Guðmundur Ingi Kristinsson, þá vorum við tveir þingmenn í Flokki fólksins. Þá strax byrjuðum við að vara við því að hugsanlega værum við að fara að taka á okkur verðbólguskot, hugsanlega værum við virkilega að gera það vegna þess að þá vorum við að glíma við Covid-faraldur, það var að brjótast út stríð. Það voru allar forsendur fyrir því að við myndum taka á okkur verðbólguskot. Nei, nei, nei, nei, það var ekkert svoleiðis. Það var ekkert svoleiðis í kortunum, bæði hæstv. forsætisráðherra og hæstv. þáverandi fjármálaráðherra sögðu nei, nei, það væri engin ástæða til að vera með svona svartsýni. Hér værum við í lágvaxtaumhverfi og það væri ekkert sýnilegt árin fram undan um að það yrði nokkur breyting á því. Hér bara draup smjör af hverju strái og hér voru bara allir glaðir og hér var allt í blóma en þrátt fyrir það hafði verðbólgan tvöfaldast ári seinna og árið þar á eftir hafði hún aftur tvöfaldast. Verðbólgan fór úr ríflega 2,5% upp í hvað, 8,25%.

Svo er náttúrlega líka þetta sem við spyrjum okkur að þar sem verðbólga nú er komin niður fyrir 7% og aftur á móti stýrivextir í 9,25%, eftir hverju er verið að bíða með því að lækka stýrivextina? Eftir hverju er verið að bíða með það? Er það þessi ótti við láglaunafólkið? Er það þessi ótti við starfsmennina sem núna eru í kjaraviðræðum? Er það óttinn við að þau verði svona ofboðslega kröfuhörð, svona rosalega frek, þau sem hafa í engu fylgt í launum þeim hrikalegu hækkunum sem hafa dunið yfir allt samfélagið? Við vitum það öll bara á matarkörfunni hversu stökkbreytt hún er að verða. En nei, það er nefnilega svo athyglisvert sem það er að forystumenn verkalýðshreyfingarinnar komu strax fyrir jólin með alveg ótrúlega metnaðarfulla og glæsilega samstöðu inn í allar kjaraviðræðurnar og voru tilbúin að leggja allt á sig, jafnvel núna ekki krónu í launahækkanir, en hins vegar áttu allir að taka þátt, það átti að vera þjóðarsátt, það áttu allir að taka þátt. Það áttu allir að vera með til þess að við næðum niður þessari verðbólgu, til að við myndum í rauninni sjá vextina lækka vegna þess að hagur okkar allra felst í því. Það eru bestu kjarabætur sem við nokkurn tíma gætum fengið að koma á stöðugleika og ná niður vöxtum og verðbólgu um leið eða réttara sagt verðbólgu og vöxtum um leið því að það virðist vera einhvern veginn eins og það sé alltaf tengt saman.

Við vitum að því hefur verið haldið fram að það grafi undan trúverðugleika verðbólgumælinga að taka húsnæðisliðinn út úr vísitölu neysluverðs. Það er bara ekki satt. Það er bara alrangt. Hagstofan heldur þegar til haga vísitölubreytingum án húsnæðis og því ætti stofnunin að geta breytt framkvæmdinni til samræmis við þetta frumvarp án mikillar fyrirhafnar. Það er bara þannig. Þessi húsnæðisliður hefur verið inni í vísitölu neysluverðs svona til að tryggja þá sem eiga, eins og Sjálfstæðisflokkurinn vill gjarnan gera, þeir sem eru hagsmunagæslumenn fyrir auðvaldið og þá sem eiga. Ef skyldi nú koma eitthvert áfall á fasteignamarkaðnum og fasteignaverðið myndi bara allt í einu pompa niður, sem er náttúrlega algerlega ævintýralega ruglað að láta sér detta í hug að vísu, þá er eins gott að hafa þarna þennan húsnæðislið til að tryggja í rauninni eignarhlutinn. En núna er eignarhluturinn að étast upp hvort heldur sem er.

Það verður áfram hægt að birta opinbera vísitölu neysluverðs með húsnæðislið þótt við tækjum þar út. Við getum alltaf borið það saman vegna þess að við erum með reikniformúluna, líkanið fyrir hvort tveggja. Um þetta segir t.d. í umsögn, við höfum fengið umsagnir og um þetta segir í umsögn Hagsmunasamtaka heimilanna um frumvarpið frá 152. löggjafarþingi, með leyfi forseta:

„Hagstofan birtir nefnilega vísitölu neysluverðs bæði með og án húsnæðis svo langt aftur sem mælingar ná og greiningaraðilar gætu því eftir sem áður stuðst við hvora þeirra sem þeir vilja frekar nota. Jafnframt myndi breytingin hafa þau raunverulegu áhrif að árshækkun verðtryggðra skuldbindinga myndi strax lækka … “

Takið eftir, myndi strax lækka.

Svona til gamans ætla ég aðeins að fara í smá sögu, tala um húsnæðisliðinn með því að segja ykkur svolítið eins og t.d. að vísitala neysluverðs stendur núna í 607,3 stigum, en vísitala neysluverðs á húsnæði stendur í 495,6 stigum. Vísitölurnar byrjuðu í 100 stigum árið 1988. Þá voru þær 100 stig. Vísitala neysluverðs er í dag 22,6% hærri en ef hún hefði verið án húsnæðis frá upphafi. Hugsið ykkur. Með þessum húsnæðislið hefur vísitala neysluverðs, frá því við byrjuðum þessar mælingar, hækkað í rauninni neysluna um 22,6%. Vísitala íbúðarhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu stóð í 988,4 stigum í október en hún nær aftur til ársins 1994. Hún hefur því hækkað úr 100 stigum í 1.000 stig á 30 árum, tífaldast. Eins og ég sagði áðan, eina tímabilið sem vísitalan lækkaði var þarna í kringum efnahagshrunið 2008 en árin 1994–1999 var mjög lítil breyting á vísitölunni og hélst hún nánast allt tímabilið í þessum 100 stigum þar til hún rauf 110 stiga múrinn í janúar 1999. Ég velti fyrir mér, af hverju ætli hún hafi getað staðið svona jöfn þarna, hvað voða stöðugleiki var þá í kortunum? Það breytir ekki þeirri staðreynd að það hafa verið uppi vangaveltur um að húsnæðisliðurinn yrði tekinn úr vísitölunni eða a.m.k. yrði þessum útreikningum Hagstofunnar breytt og þá er verið að tala um að taka einhver svona heildarmiðgildi af leigumarkaði sem er náttúrlega í algeru rugli hérna líka eins og við vitum og ég veit ekki alveg hvernig á að reikna það út. Hins vegar veit ég að sú reikniformúla sem hér er viðhöfð til þess í rauninni eins, virðist vera, að hækka neysluvísitöluna sem mest og best má — þá langar mig líka að segja eitt: Það er svolítið athyglivert hvernig okkur tekst að reikna einföldustu hluti. Þetta er í annað sinn á jafn mörgum árum sem Hagstofan hefur í rauninni gefið út villandi upplýsingar um fólksfjöldann í landinu. Núna töpuðu þeir 13.000 einstaklingum sem allt í einu voru ekki til staðar lengur en í fyrra voru þeir minnir mig 10.000. Ég verð að segja að þeir verða nú kannski bara að fara að handtelja hausana ef það er svona sem þeim gengur að hafa hlutina á hreinu.

Þess vegna segi ég: Það er kominn tími til að við tökum þennan húsnæðislið út úr neysluvísitölunni. Það er kominn tími til að við sjáum raunverulega að verðbólgan taki dýfu niður, færi núna úr þessum tæplega 7% og kannski væri einstaklega fallegt að fá að sjá hana fara allt niður í 5,5%. Ég trúi því ekki að það yrði þá hægt að halda stýrivöxtum enn í 9,25%. Ég trúi því ekki. En við hver 2–2,5% í vaxtalækkanir þá getum við alveg verið viss um að það myndi bjarga mörgum heimilum frá því að lenda undir fallhamrinum.