154. löggjafarþing — 76. fundur,  21. feb. 2024.

vísitala neysluverðs.

137. mál
[17:28]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf):

Virðulegur forseti. Stærsti einstaki orsakavaldur verðbólgu er sífellt hækkandi húsnæðisverð. Þetta veldur keðjuverkandi áhrifum sem leiða til þess að greiðslubyrði heimilanna þyngist og lánin hækka til muna. Verðbólgan nú er 6,7% en væri komin niður í 5% ef ekki væri fyrir áhrif hárra vaxta á húsnæðislið vísitölunnar. Það væri áhugavert að reikna út hvað húsnæðisliðurinn í vísitölunni hefur kostað íslensk heimili og fyrirtæki en þar er um háar upphæðir að ræða. Og til hvers? Hverjum er það til gagns að íslensk heimili séu að borga hærra vöruverð og hærri vexti til að ná niður verðbólgu sem þarf ekki að vera 6,7%, svo að ekki sé minnst á hversu mikið hærri hún hefur verið á undanförnum rúmum tveimur árum en ef húsnæðisliðurinn hefði ekki verið í vísitölunni? Við vitum svo sem hverjum það er til gagns. Það blasir við í hagnaðartölum ýmissa stórfyrirtækja, svo að ekki sé minnst á bankana, hver er að græða á því að halda verðbólgu sem hæstri á Íslandi.

Húsnæðisliðurinn er í neysluvísitölunni en af hverju er liður í neysluvísitölunni sem ekki er neysluvara? Samkvæmt íslenskri nútímaorðabók er neysluvara skilgreind sem vara sem framleidd er til neyslu. Ef ég slægi upp ensku skilgreiningunni á „consumer product“, með leyfi forseta, þá kemur upp í lauslegri þýðingu, þar sem þingmálið er íslenska: Vara sem keypt er af einstaklingum eða heimilum til neyslu. Það er erfitt að halda því fram að húsnæði sé neysluvara. Húsnæði er nauðsyn sem fólk hefur ekki val um að kaupa. Öll þurfum við þak yfir höfuðið. Hins vegar er það neysla sem snýr að afnotum af húsnæðinu, eins og t.d. rafmagn og hiti, en ekki húsnæðið sjálft. Leiga og afborganir lána sem greiddar eru fyrir afnot af húsnæði í hverjum mánuði gætu einnig átt heima í vísitölunni en ekki vísitala húsnæðisverðs því að þar er um notkun og þar með neyslu húsnæðis að ræða.

Það eru nákvæmlega engin rök fyrir því að skilgreina húsnæðisverð sem neyslu, enda allt annað sem er í vísitölu neysluverðs, sem eru smærri hlutir sem saman mynda stóra upphæð. Í alls konar þrautum eru stundum settar fram myndir þar sem ein passar ekki. Það gæti t.d. verið mynd af osti, mjólk, húsi og rjóma og spurt hvað eigi ekki heima þar. Svarið er augljóst, húsið passar ekki inn í þessa mynd. Ef sams konar mynd væri sett upp með neysluvísitöluna blasir við að húsnæðisliðurinn passar engan veginn inn í hana. Flokkur fólksins hefur lengi barist fyrir því að húsnæðisliðurinn verði tekinn út úr vísitölunni og það er ánægjulegt að sjá að þessi skoðun er að öðlast meira fylgi. Við sem viljum taka húsnæðisliðinn úr vísitölunni erum krafin um rök en í raun ætti þetta að vera öfugt. Það þarf að færa mjög sterk rök fyrir því að hafa húsnæðisliðinn í vísitölunni en þau hef ég ekki heyrt.

Svo að talað sé inn í aðstæðurnar sem við sem þjóð stöndum frammi fyrir núna eru a.m.k. tvenn mjög sterk rök fyrir því að húsnæðisliðnum sé kippt úr vísitölunni án tafar. Í fyrsta lagi er það staðreynd að gríðarlegar vaxtahækkanir Seðlabankans hafa snúist upp í andhverfu sína. Verðbólgan væri komin niður í 5% ef ekki væri fyrir áhrif þeirra háu vaxta á húsnæðislið vísitölunnar sem eiga að vinna gegn verðbólgunni. Þetta náttúrlega nær ekki nokkurri einustu átt. Það er ekki heil brú í þessu.

Í öðru lagi er nauðsynlegt að taka húsnæðisliðinn úr vísitölunni, náttúrlega helst af öllu fyrir fullt og allt en þó ekki væri nema tímabundið, því að sú hækkun sem líklega verður vegna aukningar á eftirspurn sem innflæði Grindvíkinga á fasteignamarkaðinn mun valda, sem er einsdæmi og hefur lítið sem ekkert að gera með kostnaðinn við það að byggja nýtt húsnæði eða viðhalda gömlu, innflæði Grindvíkinga á húsnæðismarkaðinn, sem er fyrirsjáanlegt að mun valda þenslu á húsnæðismarkaði, á ekki að hafa áhrif á húsnæðislið vísitölunnar með tilheyrandi afleiðingum. Þetta innflæði má kalla einskiptisaðgerð sem á því ekki að hafa áhrif á vísitöluna, verðbólgu eða vaxtahækkanir sem allar hafa langvarandi áhrif. Þess vegna er nauðsynlegt að taka húsnæðisliðinn úr vísitölunni án tafar.Fjármögnunarúrræði fyrir Grindvíkinga má ekki hafa áhrif á afkomu heimilanna í landinu sem mörg hver eru komin á ystu nöf og það má ekki ýta þeim fram af henni.

Að því sögðu ítreka ég að náttúrlega er löngu orðið tímabært að taka húsnæðisliðinn alfarið úr vísitölunni áður en hann veldur meiri skaða en orðið er, eins og þetta frumvarp Ingu Sæland og Flokks fólksins mælir fyrir um. Svo er það í raun kaldhæðnislegt í ljósi þess hve mikil baráttan hefur verið fyrir því að taka húsnæðisliðinn úr vísitölunni að vandinn er í raun ekki vísitalan heldur það að vísitalan hafi áhrif á lánin okkar. Við búum við þau ósköp hér að vera með verðtryggð lán. Án þeirra myndum við hafa litlar sem engar áhyggjur af vísitölunni eða því hvað hefur áhrif á hana. Ef ekki væri fyrir verðtryggð lán myndi húsnæðisliðurinn í vísitölunni eiginlega ekki skipta okkur neinu máli. Við þurfum náttúrlega að útrýma verðtryggingunni en húsnæðisliðurinn í vísitölunni væri mikilvægt fyrsta skref sem við þurfum að taka strax, áður en skaðinn verður meiri en hann er þegar orðinn.