135. löggjafarþing — 77. fundur,  12. mars 2008.

öryggismál í Flugstöð Leifs Eiríkssonar.

[14:03]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F):

Herra forseti. Ég geri mér fulla grein fyrir því og ég tók það fram að það hefði verið heppilegra að ræða þetta við dómsmálaráðherra en það er ekki á mínu forræði að ákveða hvaða ráðherrar eru til svara. En nú er skammt í páskafrí og því taldi ég brýnt að vekja athygli á þessu máli.

Ég varð fyrir nokkrum vonbrigðum með þá fullyrðingu hæstv. samgönguráðherra að málið sé í góðum farvegi milli fjármálaráðuneytis, dómsmálaráðuneytis og embættisins syðra. Ég hef ekki sannfæringu fyrir því að svo sé og ég hef í rauninni áhyggjur af því ef hæstv. samgönguráðherra ætlar sér ekki neina sjálfstæða þátttöku eða sjálfstætt framtak í þessu sem honum ber skylda til sem ábyrgðarmanns þess að rekstur í Flugstöð Leifs Eiríkssonar gangi hnökralaust fyrir sig. Það stefnir allt í að það verði ekki þannig innan fárra mánaða og því kalla ég eftir ábyrgari stjórnsýslu en boðuð var hér áðan.