138. löggjafarþing — 77. fundur,  18. feb. 2010.

gengistryggð lán.

[13:49]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Eygló Harðardóttur fyrir að vekja máls á þessu í þinginu í dag. Nú hefur ríkisstjórnin og hæstv. ráðherra efnahags- og viðskiptamála eiginlega síðasta tækifærið til að vera það sem á vondri íslensku kallast „pró-aktífur“ en ekki „re-aktífur“. Dómur hefur þegar fallið í héraði og það er viss réttaróvissa. En það sem við vitum og er engin óvissa um er að það hefur orðið algjör forsendubrestur. 40.000 einstaklingar eru með gengistryggð bílalán, og 11% af húsnæðislánum eru gengistryggð. Hvað á þetta fólk að gera? Á það að leita réttar síns? Og hvað með öll fyrirtækin sem eru einnig með gengistryggða lánasamninga?

Ég held að í meginatriðum hafi stjórnvöld þrjá kosti, í fyrsta lagi að stórauka við öll fjárframlög til dómskerfisins svo það geti tekið á öllum þessum málum. Þá duga engar smásummur. Eins væri hægt að setja einhverja löggjöf um hópmálsókn eða í þriðja lagi, og það er sá kostur sem ég aðhyllist, að hafa forgöngu um almennar leiðréttingar með einhverjum hætti. Með þeirri leið gætum við komið á einhvers konar réttlæti. Það er einmitt tilfinningin fyrir því að við búum í réttlátu þjóðfélagi sem okkur skortir og hún er okkur svo nauðsynleg til að fólk vilji búa hérna áfram, greiða skattana sína og taka þátt í uppbyggingu samfélagsins.