138. löggjafarþing — 77. fundur,  18. feb. 2010.

birting skjala og annarra upplýsinga um ákvörðun um stuðning Íslands við innrásina í Írak.

289. mál
[16:44]
Horfa

Flm. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta mál snýst ekki bara um hlutdeild okkar í árásinni á Írak árið 2003 heldur snýst það líka um íslenska stjórnsýslu, gagnsæi hennar, opna stjórnsýslu, lýðræðisleg vinnubrögð, hvernig það gat gerst að Ísland var sett á lista með svokölluðum viljugum þjóðum án þess að fram hefði farið um það umræða í þinginu eða þjóðfélaginu almennt. Það kom á daginn og hafði ítrekað komið fram að yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarinnar var andvígur stríðsrekstrinum.

Síðan kom í ljós að árásin á Írak stríddi gegn alþjóðalögum, það er nokkuð sem forsvarsmenn Sameinuðu þjóðanna hafa fullyrt. Hér erum við komin niður í litla tebolla og hér er vísað í afgerandi álitsgerðir frá lögmönnum, t.d. Eiríki Tómassyni. Ég var mjög ósáttur við og ósammála álitsgerð hans á sínum tíma. Þetta er eitt af þeim málum sem við tækjum til skoðunar þegar við fjölluðum um þessi mál í rannsóknarnefnd og færum þar að dæmi annarra þjóða.

Bretar eru núna að skoða þessi mál í sínum ranni. Sama gildir um Danmörku, þar er það á leið til Hæstaréttar landsins hvort stjórnarskrá landsins hafi verið brotin með því að setja Dani á þennan illræmda lista. Í Hollandi hefur óháður rannsóknaraðili komist að þeirri niðurstöðu að landslög hafi verið brotin, mistúlkaðar yfirlýsingar frá öryggisráðinu nr. 1441, svo dæmi sé tekið, og þetta mál er á leið núna inn í hollenska þingið þar sem það verður (Forseti hringir.) tekið fyrir rannsóknarnefnd. Það gildir um Holland líkt og okkur að Hollendingar studdu málið bara pólitískt, (Forseti hringir.) ekki hernaðarlega. Alls staðar eru menn að taka þetta upp en það er (Forseti hringir.) bara Sjálfstæðisflokkurinn á Íslandi sem er svona óskaplega (Forseti hringir.) óhress með að ráðast í slíka athugun og menn segja að öll gögn séu komin fram. (Forseti hringir.) Þá er þetta lítið mál, þá tekur þetta bara skamman tíma.

(Forseti (ÁÞS): Forseti biður hv. þingmenn að virða tímamörk.)