140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[18:45]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég les kannski ekki spurninguna með nákvæmlega sama hætti og hv. þingmaður. Ég get tekið undir að í dag eru það þingmenn einir sem geta lagt fram frumvarp, þingmenn sem sitja sem þingmenn og þingmenn sem sitja sem ráðherrar og síðan þingmenn innan nefnda. Aðrir eru ekki til þess bærir enn þá en einhvers staðar stóð að fleiri ættu að geta gert slíkt.

Mér finnst eiginlega frekar felast í þessum tveimur spurningum þetta: Að í annarri spurningunni felist í raun að þingið eigi að taka tillögur stjórnlagaráðs, yfirfara þær, lagfæra, breyta og skoða í tengslum við núgildandi stjórnarskrá, og hin spurningin sé þá fólgin í því að stjórnlagaráðstillögurnar eins og þær liggja fyrir verði ekki að nýrri stjórnarskrá. En ég er hins vegar ósátt, frú forseti, við það ferli sem við erum á leið inn í með stjórnarskrána. Það er ekki af hræðslu við að tala við fólk því að það hef ég aldrei óttast, og ekki af því að ég vilji ekki breyta stjórnarskránni vegna þess að ég er ein þeirra sem eru til dæmis hlynntir því að orkan í iðrum jarðar og sjávarfang okkar verði í eigu þjóðar, en okkur getur hins vegar greint á með hvaða hætti eigi að nýta það, en ég er þeirrar skoðunar. Ég get tekið undir ýmislegt í stjórnlagaráðstillögunum og er óhrædd við endurskoðun á stjórnarskránni en ég get ekki fellt mig við það ferli sem við erum komin í hér og nú með stjórnarskrána.