149. löggjafarþing — 77. fundur,  7. mars 2019.

efnahagsleg staða íslenskra barna.

[11:21]
Horfa

Valgerður Sveinsdóttir (M):

Hæstv. forseti. Mig langar að hefja mál mitt á orðum Nelsons Mandela, með leyfi forseta: „Eins og þrælahald og aðskilnaðarstefna er fátækt ekki sjálfsögð. Hún er sköpuð af manninum. Á henni má vinna bug og útrýma með aðgerðum mannsins.“

Á Íslandi ætti fátækt ekki að fyrirfinnast. Í jafn auðugu landi þurfum við að skipta gæðunum jafnar með okkur. Hér inni er sem betur fer fullur salur, eða næstum því, af fólki sem er í stöðu til að útrýma fátækt á Íslandi. Það er allra hagur. Rannsóknir sýna að börn og unglingar sem alast upp við bágan fjárhag eru líklegri til að falla úr íþrótta- og tómstundastarfi, neyta áfengis og fíkniefna. Fátækt ýtir undir stéttaskiptingu, eykur streitu sem getur aftur leitt til ýmiss konar heilsufarsvanda. Börn sem alast upp við fátækt eru líklegri en önnur til að eiga við geðræn vandamál að stríða síðar á ævinni. Þau eru einnig líklegri til að verða fyrir einelti sem og að leggja aðra í einelti. Loks eru þau í margfalt meiri hættu á að verða fyrir kynferðisofbeldi, enda viðkvæmur hópur.

Það er því gríðarleg mikil forvörn gegn áföllum, sjúkdómum, fíkn og geðrænum kvillum að útrýma fátækt. Með því að bæta og jafna kjör almennings aukum við líkur á því að börn sem eru að alast upp verði heilbrigðir og virkir þjóðfélagsþegnar. Með hverju barni sem bjargast frá fíkn eða geðrænum sjúkdómum spörum við gríðarlegan kostnað síðar meir og það sem mikilvægara er, björgum manneskjunni sjálfri.

Að lokum vil ég undirstrika mikilvægi forvarna og þess að styðja myndarlega við íþrótta- og tómstundastarf barna og unglinga, en sá þáttur virðist vera skorinn fyrst niður á heimilum þar sem er þröngt í búi. Stöndum saman að góðum málum.