149. löggjafarþing — 77. fundur,  7. mars 2019.

fiskeldi.

647. mál
[12:33]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Forseti. Ég vil byrja á því að þakka ráðherra fyrir ræðu hans hér og andsvörin og fyrir að hafa komið með frumvarpið inn í þingið. Þetta er mikilvægt mál og mikilvægt frumvarp, að ná betur utan um fiskeldismálin. Sagan er vitanlega nokkuð löng varðandi tilurð þessa máls. Uppbygging í fiskeldi hefur verið mjög hröð á Íslandi og má kannski segja að við höfum verið að elta atvinnugreinina í þessu. Við erum svolítið að fylgja eftir þeirri hröðu þróun sem þar er. Ríkisvaldið, reglurnar, umhverfið, hefur ekki alltaf verið í takti við tímann þegar uppbyggingin á sér stað. Á sama tíma vitum við að eftirspurn eftir matvælum framleiddum í hvers konar eldi eykst sífellt, ekki síst í ljósi þess að þeim fækkar sem framleiða matvæli á hefðbundinn hátt. Í mörg ár hefur bændum eða öðrum matvælaframleiðendum fækkað jafnt og þétt, þeir hafa flust til stórborganna um allan heim. Á sama tíma sjáum við að hafið lætur undan. Hvers konar eldi er því komið til að vera og mun vaxa. Þar af leiðandi er hægt að taka undir það sem fram kemur í frumvarpinu, og hefur komið fram hjá ráðherra, að það er mikilvægt að ná utan um þessa grein og skapa ákveðið umhverfi þannig að menn viti að hverju þeir ganga.

Eins og kemur fram í heiti frumvarpsins er mikið til fjallað um áhættumat erfðablöndunar, úthlutun eldissvæða, stjórnvaldssektir o.s.frv. Ég ætla að geyma mér ákveðinn hluta þessara laga og mögulega fjalla um það síðar. Á forsíðu frumvarpsins er upptalning á skilgreiningum. Þar segir, með leyfi forseta, í 1. tölulið b-liðar:

„Áhættumat erfðablöndunar: Mat á því magni frjórra eldislaxa sem strjúka úr eldi í sjó og vænta má að komi í ár þar sem villta laxastofna er að finna og þar sem metið er hvenær erfðablöndun eldislax við villta nytjastofna, að teknu tilliti til mótvægisaðgerða, verði það mikil að stofngerð villta stofnsins stafi hætta af.“

Ég verð að viðurkenna að ég hef kannski ekki lesið nógu djúpt í skýringunum hvað átt er við með „að teknu tilliti til mótvægisaðgerða“. Það er hins vegar mjög mikilvægt að býsna ítarlega sé fjallað um það hvernig bregðast skuli við og meta mótvægisaðgerðir komi þær hugmyndir fram.

Í andsvari við hæstv. ráðherra spurði ég út í hvenær áhættumatinu hefði verið beitt. Við vitum að það hefur einu sinni verið gert, við Ísafjarðardjúp, ef ég man rétt, þar sem hugmyndum þeirra sem vildu fara í eldi um mótvægisaðgerðir var hafnað, í það minnsta í upphafi. Mótvægisaðgerðir eru víða þekktar. Okkur ber að sjálfsögðu að taka þær með í reikninginn og hafa það alveg skýrt hvenær þær eiga við og hvenær ekki o.s.frv.

Þá er hér líka talað um villtan laxastofn. Í skýringum um einstakar greinar frumvarpsins er örlítið fjallað um hvað þetta þýðir. Hér eru nefndar tvær leiðir til að skilgreina villtan laxastofn og virðist vera sem Hafrannsóknastofnun velji ákveðna leið ef ég hef skilið þetta rétt. Ég tel mjög mikilvægt að fara grundigt ofan í hvaða skilgreiningu menn ætla að nota. Í mínum huga stenst það varla skoðun ef valið stendur milli fiskeldis, sem getur leitt af sér hundruð eða tugi hundraða starfa, eða „villts laxastofns“ sem ræktaður hefur verið upp í á þar sem laxastofn hefur jafnvel ekki verið fyrir eða að beitt er aðferðum sem tengjast ekki beint villtu dýralífi; mér finnst mjög vafasamt að láta slíkar ár njóta vafans svo að ég sé alveg hreinskiptinn með það. Ég held að gera verði greinarmun á því hvenær raunverulega villtur stofn er í á og hvenær ekki. Þetta kann að vera flókið en samt er mjög mikilvægt að þetta verði skýrt.

Mig langar síðan aðeins að fjalla um samráðsnefndina sem ráðherra nefndi. Ég er algjörlega sammála því — í ljósi þess hvernig frumvarpið er orðað, og jafnvel þó að það væri aðeins öðruvísi orðað, ég kem inn á það á eftir — að samráðsnefnd sé til bóta. Það er að sjálfsögðu til bóta að fara yfir þessi mál og ekki síst þær forsendur og þau gögn sem notuð eru í því áhættumati sem hér er rætt um. Ég ætla að leyfa mér að segja að mér finnst býsna bratt að ætla að lögfesta áhættumat með þeim hætti sem hér er í ljósi þess að engin reynsla er af því. Menn vita ósköp lítið um þetta áhættumat. Ég skil vel að það þurfi einhvern ramma um það og þess vegna hefði ég kosið að áhættumatið væri ekki bindandi fyrir ráðherra, að ráðherra hefði vald til þess að kveða upp úr um það og um leið bera endanlega ábyrgð í málinu. Mér finnst slæmt að embættismenn Hafrannsóknastofnunar eigi að bera þá ábyrgð. Ég sem ráðherra þessa málaflokks um tíma átti fund með yfirmönnum þeirrar stofnunar og hef að sjálfsögðu ýmislegt um það að segja. Ég var ekki alltaf sammála þeim skoðunum sem þar komu fram, um það hvort fiskeldi ætti að vera í sjó eða eingöngu á landi. Ég hef ákveðnar efasemdir um þá aðferðafræði og annað sem stofnunin ætlar að hafa uppi varðandi fiskeldi þannig að það sé bara sagt hér. En það er til bóta meðan frumvarpið er svona orðað að þessi nefnd sé þarna.

Þá kemur aðeins aftur að áhættumatinu. Ég tel mikilvægt að festa áhættumatið ekki jafn ítarlega og hér er gert í ljósi þess að engin reynsla er af því. Gagnrýni hefur líka komið fram. Við sáum það þegar þetta áhættumat var fyrst notað að töluverð gagnrýni kom fram á það hvernig það var upp sett og notað. Nú kann að vera að brugðist hafi verið við því með einhverjum hætti, að forsendur séu breyttar eða hugmyndir þar að baki. Er það að sjálfsögðu mjög gott ef svo er. Á bls. 3 er fjallað nánar um áhættumatið og það ferli sem er um það. Það kemur fram að ráðherra staðfestir þetta áhættumat að fenginni tillögu Hafrannsóknastofnunar. Það eru ágæt rök hjá hæstv. ráðherra að þarna sé um að ræða ákveðinn massa eða fasta tölu, ólíkt því sem er í sjávarútveginum þegar verið er að úthluta aflaheimildum. Ég held samt að það sé kannski sjónarmunur þar á. Þetta er ekki þannig mál að það eigi að réttlæta það, finnst mér, að stofnunin hafi þetta endanlega úrskurðarvald. Mér finnst það ekki. Mér finnst að ráðherra eigi að taka endanlegar ákvarðanir og bera á því ábyrgð. Að sjálfsögðu hefur hann sérfræðinga til ráðgjafar og að sjálfsögðu verður það öruggara verkfæri fyrir ráðherra að taka mark á, ekki síst þegar fram líða stundir og meiri reynsla er komin á áhættumatið og menn hafa betri þekkingu á því. Það er algjörlega ljóst.

Á bls. 8 í frumvarpinu, í 19. gr., er talað um árlegt gjald sem greiða þarf. Einhverra hluta vegna er þetta sett upp í hinum leiðinlega gjaldmiðli SDR. Ég veit ekkert af hverju það er. Ég hefði kannski átt að lesa mér til um það, kannski eru skýringar á því. Af hverju nota menn ekki krónur, blessuðu íslensku krónuna, af hverju er þetta SDR-dótarí hér? Hér er hins vegar greinilega ákveðin mismunun í garð þeirra sem eru með eldi í sjókvíum og í lokuðum kvíum og líka með ófrjóan lax. Ég ætla að skilja þetta þannig að það sé innbyggður ákveðinn hvati til að menn fari þá leið, til að þurfa að greiða minna. Ég held hins vegar að það sé svolítið snemmt að setja þetta fram. Ég held að málið sé ekki komið það langt með ófrjóan lax að raunhæft sé orðið að fara í slíkt eldi. Og eftir því sem ég hef síðast lesið eru þessar lokuðu kvíar að koma en eru kannski ekki komnar alveg nógu langt. Að sjálfsögðu bíðum við frétta frá Noregi. Atvinnuveganefnd hefur verið þar og hennar er sárt saknað úr þessum sal, hún hefur verið að kynna sér málin. Kannski kemur hún með einhverjar nýjar upplýsingar, fyrir þann sem hér stendur í það minnsta, um það mál allt saman. Ef ég hef reiknað þetta rétt má áætla, miðað við SDR, að 10.000 tonna eldi greiði kannski 35–40 milljónir í þennan sjóð. Auðvitað er það eitthvað sem kemur bara í ljós.

Á bls. 10, 23. gr. c (III.), er fjallað um það hvenær rekstrarleyfi fellur niður á ófrjóum laxi. Þarna er sjálfsagt verið að horfa til framtíðar sem er alveg ágætt. Ég er búinn að fjalla aðeins um starfshópinn sem fjallað er um á bls. 12 og ætla ekkert að fara nánar út í það. Ég ítreka hins vegar að ég varð fyrir ákveðnum vonbrigðum með það þegar ég sá í hvaða farveg starf hans fór. Það var ekki ætlunin á sínum tíma að þetta yrðu samningafundir milli stærstu aðila í þessu heldur reynt að taka tillit til þess að myndin væri aðeins stærri en það. Ég held að það sé gott, ef ég skil þetta rétt, að verið sé að reyna að binda enda á það kapphlaup sem verið hefur um svæði. Það er mjög til bóta og var aldrei sniðugt að menn væru að festa sér svæði langt fram í tímann. Ég held að ráðherrann sé að gera vel með því að taka á því í frumvarpinu.

Það er eitthvað fleira sem ég ætlaði að fjalla um en tíminn líður. Mér gefst kannski færi á fyrir næstu ræður að kafa betur ofan í þetta mál. Það er nauðsynlegt fyrir okkur að málið sé eins ljóst og hægt er. Það er líka nauðsynlegt fyrir okkur að það fái góða umfjöllun. Ég vona svo sannarlega að í umfjöllun í nefnd Alþingis verði farið mjög grundigt ofan í skilgreiningarnar, ofan í þörfina á því að lögfesta áhættumatið svo ítarlega eins og gert er. Ég skil þörfina fyrir að lögfesta eitthvert tæki fyrir aðila til að vinna eftir og í kringum en ég hvet líka til þess að nefndin skoði það alvarlega að gera þær breytingar að ráðherra verði endanlegur ákvörðunaraðili, en ekki stofnun eða embættismenn.