149. löggjafarþing — 77. fundur,  7. mars 2019.

lax- og silungsveiði.

645. mál
[14:53]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi á þskj. 1051 sem er 645. mál. Þar er um að ræða frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 61/2006, um lax- og silungsveiði, og varðar selveiðar. Frumvarpið er samið í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu að tilhlutan sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra en með því eru lagðar til tilteknar breytingar á umræddum lögum nr. 61/2006, um lax- og silungsveiði, með síðari breytingum. Lagt er til að lögfest verði ákvæði um að ráðherra geti með reglugerð sett reglur um selveiðar, m.a. um skráningu selveiða og að banna eða takmarka selveiðar á íslensku forráðasvæði ef það er talið nauðsynlegt að mati Hafrannsóknastofnunar.

Með frumvarpinu er gert ráð fyrir að reglur sem ráðherra kann að setja með reglugerð um selveiðar, m.a. um hvort banna eða takmarka skuli þær á íslensku forráðasvæði, verði byggðar á ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar en stofnunin sinnir selarannsóknum og vöktun á ástandi útsels- og landselsstofns hér við land. Vöktunin felst m.a. í reglubundnum talningum, nú annað hvert ár, og eru talningarnar helstu forsendur þeirrar ráðgjafar sem stofnunin veitir.

Tilefni þessa frumvarps er að í ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar kemur m.a. fram að stofn landsels sé nú í sögulegu lágmarki. Fækkað hefur í stofninum um 77% síðan fyrsta stofnmatið fór fram árið 1980 og samkvæmt talningu sem fór fram sumarið 2016 hafði stofninn minnkað um tugi prósenta, um þriðjung, frá árinu 2011. Á nýlega birtum válista íslenskra spendýrategunda á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands sem byggir á vel þekktum skilgreiningum frá Alþjóðlegu náttúruverndarsamtökunum er landselsstofninn metinn sem „í bráðri hættu“.

Í ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar kom fram að nauðsynlegt væri að grípa til aðgerða til að snúa þessari þróun við hvað landselinn varðar. Ráðgjöf stofnunarinnar er sú að „stjórnvöld leiti leiða til að koma í veg fyrir beinar veiðar á landsel og lágmarka meðafla landsela við fiskveiðar. Nauðsynlegt sé að veiðistjórnunarkerfi verði innleitt fyrir selveiðar, og að skráningar á öllum selveiðum verði lögbundnar“. Einnig kom þar fram að rannsóknir þurfi að auka og nái það bæði til íslenskra rannsókna og Alþjóðaspendýraráðsins.

Einnig hefur fækkað í útselsstofninum en frá fyrsta stofnmati sem gert var árið 1980, eins og í landselnum, til ársins 2012 fækkaði um meira en helming í stofninum þótt stofninn hafi samkvæmt síðustu mælingu stækkað eitthvað á ný. Á nýlega birtum válista yfir íslenskar spendýrategundir á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands er útselsstofninn metinn sömuleiðis „í nokkurri hættu“ en er ekki í bráðri hættu líkt og landselsstofninn.

Ástæða fækkunar selstofnanna liggur ekki ljós fyrir en sérfræðingar Hafrannsóknastofnunar telja að beinar veiðar og hjáveiðar við fiskveiðar hafi haft veruleg áhrif til fækkunar. Aðrir þættir sem þörf er á að rannsaka nánar eru áhrif hlýnunar sjávar, breytingar í fæðuvali, mengun og fleiri þættir.

Engin heildarlög eru til um seli hér á landi og einungis fá ákvæði sem hægt er að vísa til í tilteknum lögum, m.a. í 11. gr. laga nr. 61/2006, um lax- og silungsveiði, sem fjallar raunar um ófriðun sels. Einnig eru til nokkur ákvæði í öðrum lögum, m.a. í Jónsbók frá árinu 1281, Rekabálki og Landsleigubálki og tilskipun um veiði á Íslandi frá 20. júní 1849. Enn fremur eru tiltekin ákvæði um seli í lögum nr. 30/1925, um selaskot á Breiðafirði og uppidráp, og lögum nr. 29/1937, um útrýmingu sels í Húnaósi. Þá kemur fram í 3. gr. laga nr. 46/1941, um landskipti, að selveiði er talin til hlunninda jarða við landskipti.

Engin heimild er hins vegar í lögum nr. 61/2006, um lax- og silungsveiði eða öðrum lögum til að banna eða takmarka selveiðar hér á landi.

Ljóst er að ef banna á veiðar á sel hér á landi verður að vera skýr lagaheimild til þess sem ekki er til staðar í gildandi lögum og/eða reglum eins og áður sagði. Einnig verður það að vera byggt á vísindalegum grunni og mjög vel rökstutt.

Með vísan til framanritaðs er lagt til að bætt verði við 11. gr. laga nr. 61/2006, um lax- og silungsveiði, nýrri málsgrein sem verði 2. mgr. þar sem ráðherra verði veitt heimild til að setja með reglugerð reglur um selveiðar, m.a. um skráningarskyldu selveiða og að banna eða takmarka selveiðar ef það er talið nauðsynlegt að mati Hafrannsóknastofnunar.

Virðulegi forseti. Ég vil að öðru leyti vísa til greinargerðar þeirrar sem fylgir frumvarpinu. Þar er ítarlega fjallað um og gerð grein fyrir efni þess. Að lokinni umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. atvinnuveganefndar.