151. löggjafarþing — 77. fundur,  13. apr. 2021.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

663. mál
[18:42]
Horfa

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað, nr. 88/1995, með síðari breytingum. Flutningsmenn ásamt mér eru hv. þingmenn í forsætisnefnd og áheyrnarfulltrúar í forsætisnefnd, Guðjón S. Brjánsson, Brynjar Níelsson, Willum Þór Þórsson, Björn Leví Gunnarsson, Bryndís Haraldsdóttir, Jón Steindór Valdimarsson og Inga Sæland.

Frumvarp þetta er flutt í þeim tilgangi að takmarka með tilteknum hætti rétt þingmanna til endurgreiðslu ferðakostnaðar eða stuðnings við ferðakostnað þingmanna í aðdraganda alþingiskosninga, þ.e. á lokasprettinum og í grófum dráttum þegar út í hina eiginlegu kosningabaráttu er komið. Af þingfararkaupslögunum sem slíkum leiðir eðli málsins samkvæmt að réttur alþingismanna til greiðslu ferðakostnaðar miðast við kjörtímabilið eða þann tíma sem viðkomandi þingmaður situr á Alþingi.

Rökin að baki því að takmarka með tilteknum hætti, að setja sérreglur um rétt þingmanns sem sækist eftir endurkjöri í alþingiskosningum þegar út í sjálfa kosningabaráttuna er komið, eru auðvitað fyrst og fremst þau sem hér liggja að baki, að með því megi tryggja meira jafnræði með þingmönnunum sem frambjóðendum sem leita endurkjörs og öðrum frambjóðendum, nýjum þingmannsefnum — og meira jafnræði með nýjum framboðum eða nýjum stjórnmálasamtökum og rótgrónum flokkum sem tefla fram þingmönnum í kosningabaráttunni. Í mínum huga snýr þetta í raun að bæði einstaklingunum sem slíkum, frambjóðendum sem eru að heyja kosningabaráttu, og líka með vissum hætti stjórnmálasamtökunum sem í hlut eiga. Af sjálfu leiðir að ef við föllumst á að viss aðstöðumunur geti verið í óbreyttu ástandi fyrir sitjandi þingmenn og aðra að bera sig um í kosningabaráttunni erum við í raun líka að segja að aðstöðumunur sé milli mismunandi framboða, mismunandi stjórnmálahreyfinga. Það leiðir af sjálfu.

Rótgrónir flokkar með sterka stöðu og marga þingmenn, sem þar á ofan hafa fengið stuðning frá ríkinu til að reka starfsemi sína á kjörtímabilinu sem er senn að baki, eru auðvitað í talsvert annarri og sterkari stöðu að mörgu leyti, held ég að við verðum að horfast í augu við, heldur en ný framboð sem láta reyna á gæfu sína í kosningum. Það hlýtur að vera markmið að breyttu breytanda að gera a.m.k. ekkert sem eykur á þann aðstöðumun og tryggja frekar meira jafnræði milli aðila.

Því er lagt til að réttur til endurgreiðslu ferðakostnaðar, samkvæmt ákvæðum 1. og 2. mgr. 7. gr. laganna, falli niður á tilteknu tímamarki, þ.e. sex vikum fyrir kjördag. Hér er horft til þess að það er jú þingrofstíminn, sá tími sem líða má frá því að þing er rofið og þar til kjósa skal. Það er svona í grófum dráttum hápunkturinn, sjálf kollhríðin í kosningabaráttunni, síðustu fjórar, sex vikurnar. Þetta er einföld og skýr regla og þægileg í framkvæmd. Niðurstaðan varð því að lokum að velja hreina leið í þessum efnum, að draga þarna ákveðið tímamark.

Eins og frumvarpið ber með sér eru vissulega ákveðnar undanþágur heimilar sem eru líka sjálfsagðar. Ef þingmaður, starfa sinna vegna eða vegna óska þar um frá Alþingi, tekur að sér að vera fulltrúi þess á einhverjum vettvangi, þó að skemmri tími lifi til kosninga, er að sjálfsögðu rétt að hann fái þann útlagða ferðakostnað endurgreiddan. Ef þing er að störfum lengur en þessar sex vikur — það dregst eins og iðulega hefur gerst, þó að búið sé að ákveða kjördag koma annir á þingi í veg fyrir að því ljúki á þeim tíma sem menn höfðu áætlað og starf þess teygist nær kosningunum — þá myndi undanþágan að sjálfsögðu eiga við um að þingmenn fengju þá endurgreiddan útlagðan kostnað til og frá þingi, heimili o.s.frv.

Að sjálfsögðu eru hugsanleg tilvik þar sem menn taka að sér að vera sérstaklega fulltrúar Alþingis eða eru beinlínis beðnir um að sækja atburð starfa sinna vegna sem þingmenn þó að nær sé komið í kosningunum og reglur, sem forsætisnefnd mun að sjálfsögðu setja um þessi ákvæði eins og önnur á grundvelli laganna um þingfararkaup og þingfararkostnað, myndu taka til þess. Við getum hugsað okkur dæmi eins og það að formaður í fastanefnd sé beðinn að mæta á ársfund heildarsamtaka sem slíkur. Hann væri þá augljóslega í erindagerðum á vegum Alþingis þar sem hann væri kvaddur til sem formaður fastanefndar og ætti þá að geta fengið slíkan kostnað endurgreiddan. Ég held að ekki muni vefjast fyrir mönnum að setja um þetta reglur sem skýra betur þau undanþægu tilvik sem sjálfsagt er að hafa hér uppi.

Að sjálfsögðu er ekki ætlunin með þessari breytingu að velta kostnaði yfir á herðar þingmannanna sem þingmanna og vegna starfa þeirra sem slíkra heldur hins vegar að girða fyrir að þeir búi við aðstöðumun sem væri fyrst og fremst fólgin í því að ýmiss konar pólitísk erindi væru fullgild sem andlag endurgreiðslna í hinu dagsdaglega starfi þingmannanna, svo sem eins og að sækja fundi og atburði á vegum flokks síns. Þegar komið er út í kosningabaráttuna og menn eru fyrst og fremst frambjóðendur í þeirri kosningabaráttu á annað við að mínu mati. Um það yrðu að sjálfsögðu settar reglur.

Varðandi sex vikna viðmiðunina myndi hún að sjálfsögðu skoðast í ljósi breytinga sem kunna að verða í kosningalögum ef tilefni verður til. Þá verður að sjálfsögðu einfaldlega bara farið yfir það hvort tímamörkin eigi að vera eitthvað aðeins önnur en hér eru upp dregin. Þá myndu menn einfaldlega lagfæra það ef til að mynda ný kosningalög láta mætast í einum punkti framboðsfrestinn og upphaf utankjörstaðaatkvæðagreiðslu. Þá gætu menn t.d. miðað við þann stað.

Aðeins hefur komið til umræðu hvort skapast gæti aðstöðumunur milli alþingismanna og ráðherra hvað viðkemur endurgreiðslu ferðakostnaðar vegna pólitísks starfs eða stjórnmálastarfs yrði frumvarp þetta samþykkt og Alþingi setti þessar nýju reglur hvað þingmenn snertir. Því er til að svara að samkvæmt lögum um Stjórnarráð ber hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra að setja reglur um starfskostnað og önnur starfskjör ráðherra. Það gerir hann í samráði við hæstv. forsætisráðherra. Í þeim reglum skal gæta samræmis við rétt alþingismanna og formanna stjórnmálaflokka sem sæti eiga á Alþingi til greiðslu kostnaðar vegna stjórnmálalegra starfa þeirra, samanber ákvæði laga um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað, sem og reglna sem forsætisnefnd Alþingis setur á grundvelli þessa. Með öðrum orðum: Stjórnarráðið er að þessu leyti bundið af því að samræma reglurnar því sem verður niðurstaða Alþingis.

Þá er kannski rétt að rifja upp í þessu sambandi, og allt í lagi að tala um það hreinskilnislega, að um fyrirkomulagið var dálítil togstreita á köflum, þ.e. um tíma var það viðhorf uppi í Stjórnarráðinu að Alþingi ætti að taka að sér þann hluta ferðakostnaðar ráðherra sem félli undir störf þeirra sem þingmenn og þeirra pólitíska eða stjórnmálalega starf. En fyrir því var lítil stemning hér á Alþingi Íslendinga. Hvorki sá sem hér stendur né fyrrverandi skrifstofustjóri, Helgi Bernódusson, voru mjög hrifnir af því fyrirkomulagi. Það hefði auðvitað þýtt að Alþingi hefði átt að fara að draga í sundur og sortera ferðalög ráðherra og samþykkja að sumar ferðir þeirra væru stjórnmálalegs eðlis og féllu undir endurgreiðslurétt þeirra sem þingmanna eða stjórnmálamanna en aðrar ferðir þeirra væru í embættiserindum og ráðuneytið ætti að borga þær. Sér ekki hver heilvita maður að það hefði ekki orðið mjög skilvirkt fyrirkomulag?

Sem betur fer komust menn að þeirri skynsamlegu niðurstöðu að Stjórnarráðið sæi um þennan þátt málsins, að fjármála- og efnahagsráðherra í samstarfi við forsætisráðherra setti um þetta reglur og tryggði ráðherrunum sem stjórnmálamönnum sambærileg starfskjör og þingmönnum að þessu leyti, sambærilega möguleika til að reka sín pólitísku erindi, funda og ferðast á vegum flokks síns milli landshluta o.s.frv., að það fengist endurgreitt með sama hætti og á sama grunni og þingmenn fá kostnað vegna slíkra ferðalaga bættan. Þetta er bráðnauðsynlegur og mikilvægur hluti af starfskjörum stjórnmálamannanna, þ.e. að geta borið sig um, ferðast, sótt atburði og verið fulltrúar sinna flokka, sinna kjördæma, þegar það á við.

Ég ætla ekki að gerast talsmaður þess að menn fari að biðjast afsökunar á tilveru sinni í þessum efnum eða skammast sín fyrir að sinna skyldum sínum sem þingmenn og rækja samskipti við kjósendur sína, sækja atburði og vera á viðburðum úti í sínum kjördæmum o.s.frv. Við megum ekki verða svo feimin í þeim efnum að við förum að biðjast afsökunar á tilveru okkar sem slíkri. Eins og ég leyfi mér stundum að minna á er nú miklu algengara en hitt að við þingmenn séum skömmuð fyrir að vera ekki nógu dugleg við að láta sjá okkur, nema þá kannski helst rétt fyrir kosningar. Það heyrum við stundum. Auðvitað vill fólk fá færi á sínum þingmönnum. Það vill gjarnan sjá þá koma á atburði, byggðahátíðir eða hvað það nú er og það er bara hið eðlilega. Við eigum að lifa með og hrærast með mannlífinu í landinu og ekki síst auðvitað á þeim svæðum þangað sem við höfum sótt umboð okkar til að vinna fyrir.

Hafandi sagt þetta þá held ég að menn þurfi ekki að hafa neinar áhyggjur af þessum þætti málsins. Eins og ég fór yfir er alveg ljóst að Stjórnarráðinu ber í framhaldi af breytingum sem Alþingi kann að gera nákvæmlega á þessum reglum að aðlaga reglur sínar að því, plús það að eftir að þetta bar á góma í forsætisnefnd, þegar við vorum í undirbúningi þessa máls, var niðurstaðan að setja frumvarpið í bið um smátíma, skrifa ráðuneytunum bréf og inna þau eftir viðhorfum þeirra til að þessar breytingar yrðu gerðar. Nú höfum við einfaldlega bréf upp á það að forsætis- og fjármálaráðuneytin heita því að gera þessar breytingar verði þetta niðurstaðan á Alþingi og þurfti svo sem ekki til, eins og ég segi, því að ég lít svo á að lagalega hefði þeim verið það skylt.

Ég hef nú lauslega gert grein fyrir meginefni frumvarpsins, herra forseti. Ég legg auðvitað til að það gangi til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að lokinni þessari umræðu.

Ég vil bæta því aðeins við að þau mál sem snúa að endurgreiðslu útlagðs kostnaðar þingmanna hafa vissulega verið til umræðu með ýmsum hætti á þingi þetta kjörtímabil og heilmikil vinna hefur farið fram sem ég lít svo á að í raun og veru sé verið að reka smiðshöggið á og að þetta sé kannski lokaaðgerðin í því að fara í gegnum allt þetta regluverk og koma því að mínu mati í mun fastari og betri skorður en áður var. Er ég þó ekki að segja að einhver lausung hafi viðgengist í þessu. Það sem við höfum gert á þessu kjörtímabili, og undirbúningur undir það hófst þegar í byrjun þess — þ.e. það var á dagskrá forsætisnefndar Alþingis strax í janúar 2017 að fara í endurskoðun á reglum um ferðakostnað og upplýsingagjöf um endurgreiddan kostnað á Alþingi — þá var strax horft m.a. til breskrar fyrirmyndar þar sem hafði orðið mikil þróun, og í fleiri þingum, í þá átt að opna miklu meira á aðgengi að upplýsingum um þessa hluti og gera ferlin gagnsærri.

Aðalatriðin í því sem hér hefur verið gert eru má segja þau að í fyrsta lagi hefur verið skert á regluverkinu sjálfu og framkvæmd þess og búið betur um það í stjórnsýslulegum skilningi. Skerpt hefur verið á reglunum um að menn skuli nota hagstæðasta ferðakostinn, þar með talið að aka til að mynda á bílaleigubílum ef vegalengdirnar sem í hlut eiga eru orðnar slíkar að augljóslega er orðinn hagstæðari kostur fyrir þingið, eða hið opinbera skulum við segja því að hér er um skattfé að ræða, að menn notist við þann kost. Því er nú framfylgt án nokkurra undanbragða. Það sýnir sig að strax og akstur er kominn á slóðir 12.000–15.000 km á ári er það orðin hagstæðari kostur en að endurgreiða mönnum akstur á eigin bíl miðað við kílómetragjald.

Gerðar eru ríkari kröfur en áður var til þess að menn tilgreini ferðatilefni og að þeirri tilgreiningu fylgi staðfestingargögn. Nú ríkir fullkomið gagnsæi um öll launa- og starfskjör þingmanna og allar endurgreiðslur á kostnaði til þeirra. Hvert einasta æti er uppi á borðum og birt mánaðarlega á vef Alþingis. Hver sem er getur flett nákvæmlega upp á því. Auðvitað eru það svo sem upplýsingar sem menn geta nálgast víðar, eins og það hvert þingfararkaupið er. Þar kemur líka t.d. fram hvort viðkomandi þingmaður fái álag á þingfararkaup vegna þess að hann sé fyrsti eða annar varaformaður í nefnd o.s.frv. Þar kemur fram hvaða stöðu hann hefur gagnvart húsnæðiskostnaði, ferðakostnaði. Það er auðvitað aðeins mismunandi eftir því hvernig menn eru settir, hvort menn eru þingmenn hér á suðvesturhorninu, svokallaðir heimanakstursmenn, eða hvort menn eru landsbyggðarþingmenn sem ferðast til og frá sínu heimili vikulega eða svo. Allar endurgreiðslur á þessum ferðakostnaði, hvort sem það eru ferðir innan lands eða utan, eru birtar.

Þetta er að mínu mati allt saman til mikilla bóta og ég endurtek að ég tel að með þessari breytingu nú, sem mér finnst sanngjörn og rétt, séum við búin að fara vel í gegnum allt regluverkið. Ég segi, alla vega fyrir mína hönd sem forseti Alþingis, að ég er mjög sáttur við að við skilum málinu svona af okkur í lok kjörtímabilsins, verði þetta frumvarp gert að lögum og fái góðar undirtektir. Ég bind að sjálfsögðu vonir við það, herra forseti, að málið fái hér brautargengi. Þá væri að sjálfsögðu æskilegt, án þess að ég sé og megi sem forseti hvetja til einhverra flýtivinnubragða — ég verð þó að leyfa mér að benda á að það væri ákaflega æskilegt að þetta yrði að lögum nú fyrir vorið þannig að leikreglurnar að þessu leyti lægju skýrar fyrir í góðri tíð fyrir í hönd farandi kosninga sem ku eiga að halda 25. september næstkomandi.

Ég hef lokið máli mínu, herra forseti.