151. löggjafarþing — 77. fundur,  13. apr. 2021.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

663. mál
[19:24]
Horfa

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég bað um orðið til að fara í andsvör en það liggur við að ég ætti að breyta því í að bera af mér sakir. Mér er eiginlega misboðið að hlusta á málflutning hv. þingmanns, að koma hér og halda því blákalt fram þvert ofan í það sem ég fór yfir í framsöguræðu og hv. þingmaður á að vita mjög vel að þetta er ekki rétt sem hann heldur hér fram, að ráðherrar séu undanskildir og þeirra þætti ekki sinnt með frumvarpinu. Það sem hér er að gerast er að það er verið að breyta grundvallarlögunum sem ráðherrann hefur embættisskyldur til að fara að hvað varðar ferðakostnaðarreglur ráðherra. Það hefði ekki þurft neitt bréf en ég tók vel í það að bera það mál upp við Stjórnarráðið, að við hygðumst gera þessar breytingar, og við höfum bréf upp á það að þar verði reglunum breytt til samræmis. En í sjálfu sér hefðum við ekki þurft það vegna þess að það er embættisskylda fjármálaráðherra að sjá um það hvað varðar ferðakostnaðarþætti í stjórnmálastarfi ráðherrans að þeir séu þar eins og hjá þinginu. Honum ber að breyta reglunum í samræmi við það sem Alþingi ákveður. Það er hið eina rétta í þessu máli. Auðvitað væri það vanræksla af hálfu ráðherrans ef engar reglur litu dagsins ljós fyrr en í nóvember. Ég myndi skilja það og ekki taka það nærri mér þó að hv. þingmaður vantreysti ráðuneytinu. Hann má alveg hafa takmarkaða trú á því að Stjórnarráðið standi við sitt. En ég vil ekki sitja undir því að ég sé að leggja hér fram mál sem vísvitandi undanskilji ráðherra og ætli þeim að ferðast á kostnað ríkisins sem frambjóðendum í kosningabaráttu en ekki þingmönnum. Það er ég ekki að gera. Ég tel að hv. þingmaður eigi að draga slíkt til baka.