149. löggjafarþing — 77. fundur,  7. mars 2019.

lax- og silungsveiði.

645. mál
[14:59]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra framsöguna. Ég vil taka það fram að ég fagna mjög flutningi þessa frumvarps, þ.e. innihaldi þess og að sett sé heimild til þess að grípa til aðgerða til að vernda þessi spendýr, selina.

Til eru lög um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, nr. 64/1994, þar sem selir eru reyndar teknir ásamt hvölum, gæludýrum og bústofni út fyrir sviga. Ég velti fyrir mér hvort sú umræða hafi farið fram í ráðuneytinu hvort það væri kannski eðlilegra, frekar en að setja þetta inn í lög um lax- og silungsveiði sem í fljótu bragði virðist ekki alveg vera það skyldasta þótt það geti verið tenging á milli eins og ég er viss um að hæstv. ráðherra er kunnugt um, að flytja selina, skulum við segja, annaðhvort yfir í villidýralöggjöfina eða hreinlega búa til sérstaka löggjöf um þá.

Eins bið ég hæstv. ráðherra að koma inn á það, af því að það kemur fram í greinargerðinni að haft hafi verið samráð við Hafró, Bændasamtökin og Landssamband veiðifélaga, ég held að það sé þá upptalið, hvort haft hafi verið samráð við t.d. Náttúrufræðistofnun og umhverfisráðuneytið í þessu sambandi.