151. löggjafarþing — 77. fundur,  13. apr. 2021.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

663. mál
[19:51]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Fínasta mál hérna enda er ég meðflutningsmaður. Það eru tvö atriði sem ég vil koma að í þessari umræðu. Í fyrsta lagi finnst mér óþarfi að undanskilja þá þingmenn sem sækjast ekki eftir endurkjöri, bara einföldunarinnar vegna. En það er mér alveg að meinalausu að það sé þarna í frumvarpinu. Hitt er síðan umræðan um þingmenn og ráðherra. Ég hef engar efasemdir um að frumvarpið eins og það er, nái tilætluðum árangri hvað ráðherra varðar. En það eru nokkrir ráðherrar sem eru í rauninni með öryggisgæslu, bílstjóra sem gegna þeirri öryggisgæslu, og geta í rauninni ekki, að því að mér skilst, hafnað því, alla vega voru einhverjar flækjur þar á bak við. Ég held að það séu forsætisráðherra, fjármálaráðherra og utanríkisráðherra, mig rekur minni til að það gæti verið eitthvað öðruvísi en bara samkvæmt mínu minni og ónákvæmum heimildum þá set ég þetta svona fram óábyrgt. Ef það á að taka tillit til þessara kostnaðargreiðslna til ráðherra þá veldur það kannski vandræðum fyrir einhverja sem munu sjá einhverja ráðherra fá far á kjörstað eða í kosningabaráttu á kosningafundi. Ég vildi bara hafa það á hreinu að kannski er þarna munur á einstaka ráðherrum og munur á aðstöðu, sumir ráðherra fá umfram aðra og þá umfram þingmenn.