Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 78. fundur,  9. mars 2023.

nafnskírteini.

803. mál
[12:25]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Hér er verið að leiðrétta ákveðinn misskilning. Fyrir fólk sem er með umsókn sína í ferli hjá Útlendingastofnun eru gefin út frekar einföld kort sem eru ekki í rauninni gild skilríki heldur eingöngu til þess að fólk hafi einhver skilríki því það hefur oft engin. Þau eru ekki af sömu gæðum og uppbyggingu og kannski nafnskírteini og dvalarleyfisskírteini. Þegar fólk er komið með dvalarleyfi á Íslandi þá skráist það í Þjóðskrá. Þá þarf það að fara til Þjóðskrár og þarf að eiga samskipti við Þjóðskrá eins og allir aðrir sem búa hér á landi þannig að það stenst heldur ekki að ástæðan fyrir þessum aðskilnaði sé sú að fólk eigi bara að leita á einn stað heldur einmitt þvert á móti. Í rauninni gerir þetta það að verkum að fólk, þrátt fyrir að það sé búið að eiga sín samskipti við Útlendingastofnun, þá þarf að halda þeim þarna áfram varðandi þessi skírteini og ég get ekki séð annað en að þetta sé til trafala í rauninni fyrir viðkomandi og jafnvel fyrir stjórnsýsluna sjálfa. En mér heyrist svo sem á hæstv. ráðherra að hann sé kannski ekki alveg með svörin á reiðum höndum hver ástæðan fyrir þessum aðskilnaði er. En ég ætla að freista þess að sjá hvort hann hafi einhverjar frekari hugmyndir um það hver gæti verið ástæðan og ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að ætla að kanna þetta með lagerinn af kortum hjá Útlendingastofnun sem ítrekað tæmist. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að sýna þessu áhuga og vildi bara vekja athygli á þessu.