146. löggjafarþing — 79. fundur,  1. júní 2017.

tillögur dómsmálaráðherra um skipun dómara við Landsrétt.

622. mál
[13:51]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. [Kliður í þingsal.] Gætuð þið kannski verið í rökræðum með lokaða hurð, afsakið. Pawel, gætuð þið verið í rökræðum með lokaða hurð?

Forseti. Ég verð að segja það að málsmeðferðin sem snertir svona mikilvægan máttarstólpa undir réttarríkið er til háborinnar skammar. Ég sakna þess að sjá hér hæstv. dómsmálaráðherra sitja og hlusta á okkur þingmenn ræða um þetta mál. Þetta mál er þess eðlis og það hvernig hæstv. ráðherra hefur komið fram við þingið er á þann veg að ég get ekki annað en lýst yfir vantrausti á hæstv. ráðherra. Ástæðan fyrir því er margþætt. Í fyrsta lagi fengum við ekki aðgengi að ákvörðun ráðherra fyrr en degi fyrir þinglok eða tveimur dögum fyrir þinglok. Á sama tíma erum við hér í atkvæðagreiðslum sem krefjast þess að við höfum hugann algjörlega við það. Við fengum örfáa fundi í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þar sem ég á sæti ásamt fleiri þingmönnum sem hér hafa talað í dag. Við kölluðum eftir skriflegu áliti, skriflegum svörum frá ráðherra í gær sem ráðherra varð ekki við heldur kom á fundinn með munnlega framsögu. Mér finnst það afar miður. Ég hefði kosið, þegar verið er að tala um svona mikilvæga hluti eins og málsmeðferð, að sú meðferð ætti að fara fram á eins opinn hátt og mögulegt er.

Eins og komið hefur fram í andsvari áðan og í ræðum hefur ráðherra ekki verið samkvæmur sjálfum sér í nein af þeim skiptum sem hann hefur komið fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Þau rök sem hafa komið fram standast ekki innbyrðis. Við í minni hlutanum höfum kallað eftir því að fá það rökstutt af hverju tilteknir einstaklingar eru færðir til á þessum lista. Ef ég hefði fengið þannig rök og getað tekið undir með ráðherra og fundist hann vera með réttmætar tillögur þá væri ég ekki hér í dag. En ráðherrann bauð okkur ekki upp á það. Það sem ráðherrann bauð upp á er að breyta forsendunum fyrir því hverjir taka sæti á nýju dómstigi. Hún breytti forsendunum eftir á. Og útskýringar hennar á þeim forsendubreytingum standast ekki.

Síðan er færður til aðili sem er metinn sá sjöundi hæfasti eftir ekki bara einhverju excel-skjali, kæru þingmenn, nei, heldur eftir rökstuddum samanburði og greiningum á hverju einasta hæfisstigi. Það má allt finna í áliti og skýrslu frá dómnefndinni, hæfnisnefndinni sem ráðherra skipaði til þess að veita sér leiðsögn um það hvernig við gætum á sem bestan máta skipað nýtt dómstig.

Við þingmenn minni hlutans í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og formenn flokkanna og þingflokksformenn höfum ítrekað kallað eftir því að okkur yrði gefinn sá tími sem eðlilegur telst til þess að fara almennilega yfir þetta, til þess að við gætum með góðri samvisku greitt þessu máli leið. En það var ákveðið að gera það ekki. Við hefðum gjarnan viljað heyra ráðherrann útskýra fyrir okkur af hverju maður sem er í 30. sæti á hæfnislistanum, sem 15 eru valdir úr, er tekinn fram fyrir þann sem er í sjöunda sæti. Af hverju er einhver sem er í 23. sæti tekinn fram fyrir þann sem er í ellefta? Hvar eru rökin fyrir því? Nei, við erum hér með hugarfarið: Ég á þetta, ég má þetta. Dómsmálaráðherra? Já. Sjálfstæðisflokkurinn? Já. Þannig hefur þetta alltaf verið. Og þannig mun þetta alltaf vera því að við horfum upp á þingmenn frá nýjum flokkum sem tala um sig sem kerfisbreytingarflokka koma hér og afsala sér í ræðustól hvorki meira né minna en eftirlitshlutverki stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Hvers konar skrípastaður er þetta? Ég á ekki til orð. Mér er heitt í hamsi. Ég skal segja ykkur af hverju, hv. þingmenn.

Árið 2010 þegar þetta mál var tekið á dagskrá, ramminn utan um þetta dómstig, þá höfðu menn eðlilega áhyggjur af því að ráðherrar myndu missa sjónar á markmiði sínu og láta hagsmuni sína ráða för. Þess vegna lögðum við til, þáverandi þingmenn Hreyfingarinnar, breytingartillögu á því sem hefði haft í för með sér aðhald við ráðherra hverju sinni, mér er alveg sama frá hvaða flokki. Breytingartillagan fól í sér að það þyrfti tvo þriðju hluta þingmanna til að fallast á tillögu dómsmálaráðherra til breytinga hverju sinni á tillögum frá hæfnis- eða dómnefnd sem ráðherra sjálfur skipar. En því miður var það kolfellt af þáverandi ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur. Það finnst mér mjög leitt. Það sýnir að það er alveg sama hver fer með völdin. Ef við höfum ekki skýrar reglur sem hefta ægivald ráðherranna þá fáum við upp svona stöðu aftur og aftur.

Hér kemur þingmaður fram og talar um að við ættum að breyta þessu. Hann talar um að við ættum að hafa annað verklag. Eigum við að hafa þannig verklag að allir þeir sem eru fengnir til þess að mæla hæfi dómara heyri á einhvern hátt undir þingið? Mér finnst það mjög skrýtið. Það hefði verið alveg nóg ef þessi breytingartillaga hefði verið samþykkt að veita ráðherranum aðhald með vitundinni um að hann þyrfti aukinn meiri hluta til þess að fá tillögur sínar samþykktar. Þá hefði ráðherrann verið þvingaður til þess að fylgja eðlilegri málsmeðferð þar sem þyrftu að koma fram almennilega rökstuddar ástæður fyrir því að fólk sem er metið mjög hæft er fært langt niður listann og þeir sem eru ekki metnir að sama leyti hæfir fluttir upp í þeirra stað.

Það hefur verið talað um að við megum ekki tala um einstaklingana eða þeirra hagsmuni. Ég ætla ekki að gera það. En ég hvet fólk til að kynna sér þessa einstaklinga sem eru færðir upp og þá einstaklinga sem eru færðir niður. Það er alveg sama hvernig við reynum að vera pen og prúð og málefnaleg, það eru alveg augljós flokkstengsl. Mér finnst það mjög dapurlegt. Mér finnst það virkilega dapurt. Við eigum ekki að skipa dómara út frá því hvaða flokksskírteini þeir hafa.

Að öllu því slepptu og þó svo að okkur væri alveg sama hverjir þessir aðilar væru og við myndum bara treysta í blindni á mat ráðherrans, þrátt fyrir að það liggi ekki alveg skýrt fyrir, þá er það þannig að samkvæmt lögum sem voru samþykkt á Alþingi ber þinginu að vera varnagli ef svo ber undir að ráðherra fari út fyrir valdsvið sitt.

Mér eru þessi mál mikil hjartans mál. Þetta er ein af ástæðunum fyrir því að ég gaf kost á mér að fara á Alþingi, óbreyttur borgari, til þess að reyna að koma á raunverulegri þrískiptingu á valdstoðum samfélagsins. Ég sá fyrir mér, rétt eins og ég sá í nýju stjórnarskránni, sprota af nýju Íslandi þar sem við værum ekki undirsett þessu gamla valdi sem allir vita hvað er. Ég sá fyrir mér að við gætum komið upp úr því mikla hruni sem hér varð sem þjóð sem fyndi samfélagslega þætti sem við gætum staðið saman að.

Eitt af því sem skiptir höfuðmáli í réttarríki er að það sé traust gagnvart dómstólum landsins. Annars eru þau lög sem við erum að semja hér ekki til neins nýt. Ef það er ekki traust á dómstólana þá er ekki traust á löggjafann. Ef það er ekki traust á framkvæmdarvaldið, á ráðherrann sem ber ábyrgð á þessu, þessari ömurlegu framkvæmd á jafn mikilvægu máli, þá er virkilega vegið að réttarríkinu.

Þegar ég hef rýnt ofan í málið — og ég hefði viljað tala um það miklu lengur en til klukkan fimm í dag, það er allt of stuttur tími, því miður — þá hefði ég viljað hreinlega lesa það fyrir alla þingmenn, sem reyndar eru ekki margir frá stjórnarmeirihlutanum, sem hafa áhuga á þessu máli, fyrst þeir höfðu ekki tíma til að kynna sér niðurstöður og mat á einstökum þáttum excel-skjalsins eða matrixunnar frægu, þannig að þeir gætu kynnt sér rökstuðning dómnefndar. Ég veit ekkert hvort ég á að treysta þessari dómnefnd meira en ráðherra, en ég veit að við höfum ákveðnar reglur. Reglurnar eru þær að samkvæmt verklagi til þess að skapa trúverðugleika og traust á nýju dómstigi þá er farin sú leið, eins og alltaf er gert, að fá vonandi óháða dómnefnd til þess að velja úr samkvæmt faglegu mati, samkvæmt öllu öðru en huglægu mati, þá sem hæfastir eru.

Ég hlustaði á rök hæstv. ráðherra sem voru um margt merkileg og þar kristallaðist vandræðagangur ráðherrans við að útskýra af hverju hann ákvað velja þessa fjóra einstaklinga. Ráðherranum fannst hann hafa vald og þekkingu og vit ofar öllum öðrum til þess að sjá hvernig svona dómstól yrði best hagað út frá mörgum ólíkum eiginleikum. Þó svo að ráðherrann héldi því fram að þeir sem hefðu dómarareynslu yrðu hífðir upp þá kom í ljós að það virtist ekki hafa skipt miklu máli. Þó að það hafi verið bætt í þann stuðul þá komu alls konar önnur rök og síðan, einhvers staðar í þessari matrixu hæstv. ráðherra, eru komin kynjasjónarmið.

Ég hefði viljað sjá hvernig ráðherrann komst að þessari niðurstöðu. Það sem við Píratar og aðrir þingmenn gagnrýnum er að hér er þess krafist að við sem eigum að vera varnagli tökum óupplýsta ákvörðun um jafn mikilvægan hlut. Þegar þingmenn koma hér og bera þetta saman við bús í búðir þá á ég bara ekki til orð, að bera þetta saman við það að við færum allt í einu að tala um áfengisfrumvarp. Hvers konar vanvirða er það gagnvart réttarríkinu? Hvers konar — ja, ég veit það ekki. Ég á ekki orð yfir svona rökstuðning. Mér finnst það á svo furðulegum level.

Það sem truflaði mig mest þegar ég hlustaði á ráðherrann og síðan meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar var í fyrsta lagi það að í gegnum öll tilsvör frá ráðherra var sú tilfinning, og ég skráði það niður í punkta af fundinum, að ráðherranum fyndist hann vita betur en allir aðrir. Það er hættulegt. Það veit enginn einn betur en aðrir. Við vitum ekkert hverjir hafa verið ráðherranum til ráðgjafar. Við vitum ekkert hvernig hann komst að þeim niðurstöðum sem hér liggja fyrir. Það er óþægilegt fyrir okkur þingmenn að taka ákvörðun og greiða atkvæði um einstaklinga sem við þurfum að gera síðar í dag. Þess vegna tel ég að langfarsælasta leiðin væri að vísa málinu aftur til ráðherra, fyrst meiri hlutinn vill ekki gefa okkur það ráðrúm sem við höfum lagalega séð rétt á og fyrst að hann kýs að taka þann rétt frá sínum eigin þingmönnum. Mér finnst ótrúlegt að þingmenn, fullorðið fólk, vilji ekki taka upplýstar ákvarðanir, þó svo að við kæmumst kannski að nákvæmlega sömu niðurstöðu. Eigum við ekki að rannsaka og vita hvað við erum að gera, óháð því í hvaða flokki við erum? Mér er algjörlega fyrirmunað að skilja þannig rök.

Ég reyndi eftir fremsta megni að kynna mér þær ábendingar sem við fengum í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Ég náði ekki að lesa yfir allar þær ábendingar, en við fengum mjög gagnlegan fund með sérfræðingum, fjölbreyttum hópi sérfræðinga, sem gáfu okkur þingmönnum í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þá ábendingu, og það var einróma, að við þyrftum að fá frekari útskýringar. Af hverju var ekki hægt að verða við því? Ef þingmönnum úr meiri hlutanum finnst að þeir séu nægilega vel upplýstir, af hverju að taka þann rétt frá okkur í minni hlutanum? Halda hv. þingmenn í meiri hlutanum að við séum bara í einhverjum pólitískum leik? Halda þeir virkilega að það sé okkar hlutverk sem fulltrúar almennings á Alþingi að taka bara þeirra orð fyrir því að þeir treysti sínum ráðherra sem situr í umboði þeirra? Hvers konar málflutningur er þetta eiginlega? Hvers konar vanvirða er þetta við þjóðþingið og það hlutverk sem okkur ber að sinna?

Það skiptir miklu máli að það ríki traust á réttarríkið og trúverðugleiki. Við erum auðvitað heimsmeistarar í þessum sal að rýra það traust og trúverðugleika með svona uppákomu. Þetta er ekki eina uppákoman. Það er svo algengt að við í þinginu látum þrýsta okkur inn í einhverja ramma um þingsköp, um þinglok, um að ekki sé tilefni til þess að fara fram með vantraust af því að það geti þjappað einhverjum ráðherrum saman eða ríkisstjórn núna. Ég verð bara að segja að ég vantreysti ráðherra dómsmála út af þessari málsmeðferð. Ef ég get sýnt það í verki þá mun ég gera það á eftir þegar frávísunartillagan kemur til atkvæða um að þetta mál fari aftur heim í föðurhúsin. Þá geta þingmenn sem hafa tjáð sig um að það væri gott að hafa þetta öðruvísi hreinlega notað tímann og búið til ný lög fyrst þeir vita betur hvernig á að gera þetta.

Hæstv. ráðherrar og hv. þingmenn meiri hlutans: Komið með lögin. Sýnið okkur hvernig á að gera þetta fullkomlega rétt, því það er augljóst að meiri hlutinn ekki bara ræður, heldur að meiri hlutinn veit best, alltaf. Það er bara ekki þannig.

Ég ætla að vona að ef þeir þingmenn sem ég hef starfað með í mínum flokki eiga einhvern tímann aðild að ríkisstjórn líti þeir aldrei svo á að þeir séu hafnir yfir það að þurfa að leita sér ráðgjafar hjá fleiri en aðeins sínum skoðanabræður. Ég ætla að vonast til þess að við getum búið í þannig ríki, með þannig réttarfari, á þannig þjóðþingi, að við getum treyst því að það séu ekki alltaf einhverjir hagsmunir að baki, einhverjir sérhagsmunir.

Þegar ég greiði atkvæði með vantrauststillögu minni í kvöld, sem heitir frávísunartillaga, þá mun ég svo sannarlega greiða atkvæði með frávísun. Ef það verður ekki samþykkt mun ég svo sannarlega greiða atkvæði gegn þessum tillögum ráðherrans, ekki út af því að ég hafi neitt á móti fólkinu, heldur af því að mér finnst ráðherrann vanvirða dómnefndina og það faglega ferli sem átti sér stað þar. Það finnst mér hneisa og skammarlegt.

Ég vildi óska þess að hæstv. ráðherra myndi biðjast velvirðingar á því að koma með málið svona inn á þingið því það hefði mátt leysa það á annan veg, það hefði mátt finna lausnir. En þegar fólk er búið að ákveða „ég á þetta, ég má þetta“ þá er ekki séns að ná neinum matrixmálamiðlunum eða fá neinar upplýsingar til þess að geta tekið upplýstar ákvarðanir. Því miður. Ísland í dag. Gamla Ísland.