149. löggjafarþing — 79. fundur,  18. mars 2019.

viðbrögð stjórnvalda við dómi Mannréttindadómstóls Evrópu. Munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[15:42]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Okkur og Alþingi kann að vera vandi á höndum. Eins og fram kom í máli hæstv. forsætisráðherra áðan þegar við vorum að fara með henni yfir skýrsluna sem hún gaf okkur þurfum við að vanda okkur. Við þurfum að vanda okkur afskaplega vel, við erum að fara að senda skilaboð út í alþjóðasamfélagið. Hvernig mun íslenska ríkið bregðast við þeim áfellisdómi sem við höfum fengið frá Mannréttindadómstóli Evrópu? Það vert að líta pínulítið til þess hvers vegna við erum aðilar að Mannréttindadómstólnum. Það er vegna þess að við vildum teljast til réttarríkis. Við vildum vernda borgarana gegn valdníðslu og ofríki valdhafanna. Einn liður í því er að viðurkenna mannréttindi. Í kringum 1950 kom mannréttindasáttmáli Evrópu til sögunnar. Fljótlega fullgilti Ísland þennan sáttmála, það var 1953. Mannréttindadómstóllinn er síðan stofnaður 1959. Það tók okkur ansi langan tíma að löggilda sáttmálann. Við gerðum það ekki fyrr en um 1993 og í kjölfarið endurgerðum við mannréttindakafla stjórnarskrárinnar í áttina að mannréttindasáttmálanum. Tíminn er ekki nægur til að fara í hvernig við höfum í gegnum tíðina þurft að viðurkenna það.

Það hefur verið okkur afskaplega ríkt í blóði að níðast á borgurunum og jafnvel valda því að þeir hafa ekki notið þeirra réttinda sem 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmálans veitir þeim, þ.e. að geta farið með mál sitt fyrir hlutlausa og óvilhalla dómstóla.

Skilaboðin nú eru skýr, Sigríður Andersen og Alþingi brutu landslög við skipun dómara í Landsrétt. Upp er komin algjör réttaróvissa í landinu hvað varðar dóma Landsréttar, ekki aðeins fyrr heldur einnig nú. Niðurstaðan kom stjórnvöldum á óvart, virðist vera, þrátt fyrir að háværar gagnrýnisraddir hafi heyrst algjörlega frá upphafi, alveg frá því að málið bar fyrst á góma. Það var ljóst alveg frá því að það kom upp hvaða leið fyrrverandi dómsmálaráðherra kaus að fara. Hún ákvað að skella skollaeyrum við öllum þeim gagnrýnisröddum og öllum álitum sérfræðinga sem vöruðu við afleiðingum þess að fylgja eftir þeirri skipan mála sem raun ber nú vitni.

Í september 2017 taldi héraðsdómur lög hafa verið brotin við skipun dómara í Landsrétt. Í desember sama ár taldi Hæstiréttur lög hafa verið brotin við skipun dómara í Landsrétt. Það er síðan í júní 2018 sem Mannréttindadómstóllinn ákvað að taka málið í flýtimeðferð. Venjan er að það taki jafnvel þrjú til fimm ár að fá mál sín fyrir dómstólinn, þ.e. ef hann tekur yfir höfuð mál til meðferðar. Í þessu tilviki þótti þetta mál vera þannig vaxið að það væri fordæmisgefandi og í rauninni fordæmalaust.

Lítum á hvernig þetta getur snúið við okkur og hversu alvarleg staðan er. Mannréttindadómstóll Evrópu átelur Alþingi Íslendinga fyrir að hafa ekki staðið rétt að löggjöfinni, hafa ekki staðið rétt að skipun dómara, og þrátt fyrir að við séum ekki bundin af þeim dómum erum við að þjóðarétti bundin af því að taka tillit til hans og það höfum við gert hingað til. Hingað til höfum við virt þær þjóðréttarlegu skuldbindingar að taka mark á dómum Mannréttindadómstólsins. Það er vel.

Ef við ætlum að reyna að standa vörð um réttarríkið sem okkur verður svo tíðrætt um og viljum gjarnan fá að vera þátttakendur í verðum við líka að standa vörð um og halda hlífiskildi yfir þeim þáttum, hvaðan sem þeir koma, sem geta tryggt það og verndað okkur gegn nákvæmlega því sem við viljum ekki, valdníðslu og ofríki valdhafanna. Þess vegna er, eins og ég talaði um við hæstv. forsætisráðherra áðan, afskaplega mikilvægt í ljósi allra þessara dóma, þriggja dómstóla, þeirra sem við höfum dæmt hér heima og síðan Mannréttindadómstólsins, að líta til þess hvaða réttaröryggi við höfum í því ef við ætlum ekki að gera neitt meira í sambandi við Landsréttinn en að horfa á að þeir 11 dómarar, sem hæfisnefnd mælti með og voru samþykktir hér, verði látnir halda áfram að dæma í Landsrétti á meðan hinir fjórir, sem deilan varðar aðallega, munu ekki fá fleiri dómsmál til meðferðar.

Það er búið að viðurkenna á öllum dómstigum að ranglega hafi verið valið í réttinn, að það sé ólögmætt hvernig við stóðum að því. Það var settur fram einn pakki með öllum þessum 15 dómurum án þess að við tækjum fyrir einn og einn dómara í einu og legðum fyrir þingið til samþykktar eða synjunar. Ef við ætlum virkilega að tala um réttaröryggi hlýtur það að vera frekar til að draga úr vafa að við fylgjum þó a.m.k. þeim reglum núna sem íslenska ríkið hefur eiginlega fengið ámæli fyrir að hafa ekki gert áður. Í stað þess að halda áfram í réttaróvissunni finnst mér við vera á þeim tímapunkti núna að að okkur beri einfaldlega skylda til þess að vanda okkur og virkilega stokka spilin algjörlega upp á nýtt. Að öllu þessu sögðu og þar á meðal því sem hefur verið viðurkennt, að þáverandi dómsmálaráðherra, Sigríður Andersen, hafi í rauninni brotið lög, við skulum bara segja það, að vísu með þinginu, þó að rannsóknarregla stjórnsýslulaga, 10. gr., hafi líka verið tekin í gegn sem brot, hefði mátt standa að þessu í allar áttir mun betur.

Það breytir ekki þeirri staðreynd að ég vil segja að sem dómsmálaráðherra finnst mér hún hafa staðið sig vel á margan hátt og mér þykir miður að þessi staða hafi komið upp. Staðan er engu að síður svona. Kannski er ekki við hæfi að fulltrúi stjórnarandstöðu segi þetta en mér hefur fundist hún hafa staðið sig mjög vel, bæði í tilsvörum og öðru, og verið virkilega það klár í því sem hún er að gera að það kemur mér alveg ótrúlega á óvart að viðbrögð hennar hafi einkennst pínulítið af stærilæti og hálfgerðum sjálfsákvörðunarrétti sem hún er þarna með sem hún telur hafið yfir allan rétt.

Að því sögðu langar mig að lokum að segja þetta: Við stöndum á þessum krossgötum nú. Okkur ber skylda til að vanda okkur og við getum gert það. Þess vegna segi ég: Tökum saman höndum hvar í flokki sem við stöndum og tryggjum réttaröryggi í landinu. Gerum það fljótt og örugglega þannig að það verði hafið yfir allan vafa að áframhaldandi dómar í Landsrétti séu ekki neinum vafa undirorpnir.