150. löggjafarþing — 79. fundur,  20. mars 2020.

störf þingsins.

[11:02]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Það er á tímum sem þessum sem í ljós kemur hvaða mann við höfum að geyma, hvert og eitt og saman. Það blasir við að nú strax og á næstu vikum munu koma þeir tímar að við sem þurfum að taka ákvarðanir fyrir alla aðra, eða flesta aðra, munum þurfa að taka mjög erfiðar ákvarðanir, flóknar ákvarðanir. Við þurfum að takast á við mjög flókin úrlausnarmál sem óneitanlega fylgja þeim aðstæðum sem öll heimsbyggðin er í. En það er líka á tímum eins og þessum sem í ljós kemur hve nauðsynlegt er að hlusta. Það hefur komið fram hjá fleirum en einum fulltrúa stjórnarandstöðunnar að stjórnarandstaðan er fús að vinna með ríkisstjórninni, hjálpa til, leggja gott til, taka á málum fljótt og vel og afgreiða mál fljótt og vel, en gerir að sama skapi þær kröfur til ríkisstjórnarmeirihlutans að hann hlusti, að hann hlusti á góðar tillögur sem koma fram frá stjórnarandstöðunni. Í því sambandi vil ég minna á tilkynningu sem Miðflokkurinn sendi út nýverið í nokkrum liðum þar sem farið er yfir mál sem gætu horft til heilla fyrir flesta.

Ég vil líka hvetja til þess að þegar stærstu aðgerðirnar eru boðaðar hafi ríkisstjórnin samráð við stjórnarandstöðuna og kynni stjórnarandstöðunni þær tillögur og þær áætlanir sem stjórnin hefur áður en þær verða gerðar opinberar, t.d. á blaðamannafundum. Ég held að það yrði til heilla til að við getum öll unnið saman að því erfiða verki sem fram undan er. Við skulum ekki vera hugdeig, við skulum horfa upp og horfa fram á við.