Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 79. fundur,  13. mars 2023.

útlendingar.

382. mál
[17:58]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég er hins vegar enn þá engu nær. Í fyrsta lagi þá verð ég að játa að ég trúi því ekki að 10.000 kr. á viku og herbergiskytra með fólki sem þú þekkir ekki neitt — og þú færð ekki að vinna og færð ekki að gera neitt og færð bara láta draga úr þér tönnina ef þú færð tannpínu. Ég trúi því ekki að það sé sérstakt aðdráttarafl fyrir fólk að koma hingað til lands, ég verð að játa það, þessi gríðarlega þjónusta sem fólk fær. Þó að það kosti ríkið kannski 300.000 kr. þá fær fólk engar 300.000 kr. Það fær 40.000 kr. á mánuði sem eiga að duga fyrir öllu, ekki bara mat heldur öllu, líka hreinlætisvörum, tómstundum, strætó. (Gripið fram í.) Ég held að strætó kosti meira en þetta á mánuði.

Ég ætla að ítreka spurninguna vegna þess að nú liggur fyrir að yfir 90% þeirra sem hingað leita fá vernd, vegna þess að þetta fólk er að koma frá Úkraínu, frá Venesúela, frá Sýrlandi, frá Palestínu og frá Sómalíu. Það er augljóst að þjónustusviptingin er ekki að fara að hafa áhrif á þennan hóp. Hvaða ákvæði frumvarpsins eru að fara að leysa þann hrikalega vanda sem hv. þingmaður telur steðja að Íslandi, að hingað leiti svo rosalega margt flóttafólk, þegar fyrir liggur að þetta er flóttafólk sem fær ekki synjun?