Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 79. fundur,  13. mars 2023.

útlendingar.

382. mál
[18:01]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var niðurstaðan, sagði hv. þingmaður, þegar hann réttlætti nefndarálit meiri hlutans og breytingar hans. En þetta er kannski ekki endilega góð niðurstaða vegna þess að það er ekki um neinar raunverulegar breytingar að ræða í sumum tilfellum. Þetta er aðallega árétting á lögfestum reglum og almennri umfjöllun og ég býst við að þetta hafi enga raunverulega þýðingu fyrir málið aðra en að vera pólitískur hvítþvottur fyrir Vinstri græn og Framsókn sem hafa talað fyrir mikilli mannúð í útlendingamálum. Sem dæmi um það ætla ég að nefna mat á hagsmunum barna. Í nefndarálitinu fjallaði meiri hlutinn sérstaklega um mat á hagsmunum barna og lögð var fram breytingartillaga en það er rétt að taka fram að í 5. mgr. 37. gr. útlendingalaganna er kveðið á um nákvæmlega sömu skyldu, þannig að þetta er sýndarmennska. Ég spyr hvort þetta dæmi staðfesti ekki það sem ég sagði í upphafi, að hér væri um að ræða sýndarleik sem væri til þess að auðvelda pólitískan hvítþvott tveggja flokka sem hafa talað fyrir allt annarri stefnu.